10.11.09

Kreppufýlan og KSÍ

Ég hef verið að greina nýja rödd í kreppuhjalinu. Hún hefur svo sem alltaf verið til staðar, en virðist færast í aukana. Nefnilega rödd fýlupokans. Hann hefur alltaf allt á hornum sér. Dæmir og fordæmir ríkisstjórnina og aðra sem eru að reyna að taka til eftir sukkið, finnst allir sem tjá sig vera annað hvort sjálfstæðismenn eða útrásarvíkingar og berist góðar fréttir sér hann sig samt knúinn til að taka þátt í umræðunni með svartagalli um að "Íslendingar séu"svona eða hinsegin og "það breytist aldrei neitt hér." Fyrir utan nú að "réttast væri að fara bara". (En fer svo aldrei neitt.) Það nýjasta er Þjóðfundurinn og stjórnlagaþing. Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvernig menn geta látið tilraunir til löngu tímabærra samfélagsumbóta fara í taugarnar á sér.

Ég hef velt þessari geðvonskulegur umræðulínu fyrir mér. Hérna sýnist mér ekki vera beinlínis réttlát reiði í gangi. Engin krafa um makleg málagjöld. Ég velti því lengi fyrir mér hvort þarna væri á ferðinni einhvers konar "öfug sálfræði", þ.e.a.s., dulbúin hvatning, þar sem menn myndu bregðast við ef lýst væri vantrausti... en mér finnst það svolítið langsótt.

En nú held ég að ég sé búin að fatta þetta.

Það er bitra pakkið sem lætur svona. Þeir sem voru alveg að fara að græða á góðærinu. Hafa svosem ekki tapað neinu, nema draumnum um að vera ógeðslega ríkur. Manni með kreppufýlu finnst ógeðslega fúlt að bólan hafi sprungið. Honum var alveg sama þótt góðærið hafi verið gervi, hann vildi græða á því. Hann þolir ekki Nýja Ísland og þráir aftur gamla Ísland, með kampavíni, kavíar, ójöfnuði og sukkveislum. En það sjónarmið er einhvern veginn ekki inn. Þess vegna situr hann úti í horni, haugbitur, og agnúast út í allt og alla. Honum finnst ekkert neitt betra núna. Honum fannst allt betra eins og það var.

Svo það er ástæða fyrir því að raddir kreppufýlupúkanna pirra mig ósegjanlega.
Ég er hjartanlega ósammála þeim.
Ég er með kreppukæti.

---

Ég veit ekki hvort maður á einu sinni að byrja á KSÍ. Viðtalið í Kastljósinu í gær var allavega ein snyrtilegasta rassskelling sem framin hefur verið á íslensku spillingarpakki. Besta hugmyndin sem ég hef heyrt í framhaldinu er að ryðja þessum köllum úr stjórn, öllum sem einum, og láta stelpurnar taka við batteríinu. Enda eru það þær sem eru að meika það í boltanum, þessi árin, miklu meira en kallarnir.

Þessir háu strípikallar geta þá bara slegist í hóp kreppufýlupúka og látið sig dreyma um gömlu, góðu dagana þegar var bara beinlínis sjálfsagt að menn færu á strípibúllur og fyllerí á kostnað íþróttahreyfinga.

Fyrir Lottópeningana, btw, sem áhugaleikhúshreyfingin og aðrar áhugamannahreyfingar fá t.d. ekki að njóta hér, líkt og gerist í Noregi og Danmörku. Nei, þá er nú betra að þessir peningar fjármagni fylleríisferðir einhverra kalla í útlöndum.

Ég kalla eftir Nýja Íslandi í málið.

Engin ummæli: