1.12.09

Arion heldur sparifé mínu í gíslingu!

Jæja. Nú fer ég alveg að hringja í Davíð.

Ég er búin að standa í "ferli" að skipta um viðskiptabanka. Og eitt grunaði mig að yrði vesen. Ég á nefnilega rúma milljón inni á verðtryggðum reikningi í "Arion" (þetta nafn bara verður að vera innan gæsalappa) og hann er bundinn til 2012. Þegar ég stofnaði hann grunaði mig hins vegar ekkert um að þessi banki hefði hugsað sér að halda uppi glæpastarfsemi Haga um ókomna tíð og einkavæðast á þann dæmalausa hátt til huldufólks eins og nú er orðið. Svo lengi sem ég verð í einhverjum viðskiptum við þennan banka verð ég með æluna í hálsinum.

Sem betur fer er umsókn mín um viðskipti hjá Sparisjóði Svarfdæla langt komin. Það er bara eitt vandamál. Bankinn vill ekki láta mig fá peningana mína. Útibússtjóri þarf að samþykkja að maður eyðileggi eða taki út af bundnum reikningi. Þetta hef ég þó fengið að gera fram og til baka á mínum reikningum í þessum banka sem öðrum alla ævi, hef enda algjörlega flekklausa viðskiptasögu og þetta ekki verið fjárhæðir sem ættu að setja bankann á hausinn.

En í morgun hringi ég, og fæ svar eftir nokkra stund, þvert nei.

Stuttu síðar sé ég fréttir af nýju eignarhaldi bankans.

Ég sé rautt og er of frávita af brjáli til að átta mig almennilega á því hvað ég á að gera næst. Faðir vor ætlar að ræða eitthvað við sinn mann innan útibúsins og nýi viðskiptabankinn minn er tilbúinn til að reyna eitthvað að koma að málinu, gangi það ekki.

Ég vona að gert verði áhlaup á bankann og hann fari á hausinn fyrir hádegi á morgun. Ég vil frekar hafa peningana mína glataða að eilífu heldur en "óhulta" í láni hjá Jóni Ásgeiri eða öðru útrásarpakki.

Ég held ég fari bara í gönguferð og síðan jóga til að forða mér frá alvarlegu geðrofi af brjáli.

Engin ummæli: