27.1.10

Bara Eitt Barn

Þegar maður eignast 3 börn á 2 og 1/2 ári fær maður sjaldan að prófa þann lúxus að eiga bara eitt barn í heilan dag. Og yngri börnin tvö fá næstum aldrei að hafa neitt eða neinn í friði fyrir hvoru öðru. Nema kannski helst ef þau eru veik. Og þá er skemmtanalífinu takmörk sett. En á meðan þau eru á sitthvorum leikskólanum kemur þetta fyrir.

Aðskildir starfsdagar, nefnilega.

Og svo skemmtilega vildi til að Freigátuleikskóli var með starfsdag einmitt í dag, daginn fyrir afmælið hennar. Gert var mikið plan. Um leið og við nenntum að klæða okkur (sem var ekki mjög snemma) drifum við okkur niður í bæ og tókum strætó í Kringluna. Hvers vegna strætó? Það er svo gríðarlega mikið sport. Freigátan hafði mikinn áhuga á fólkinu sem kom og fór og stundum komu athugasemdir. Sem betur fór var konan sem sat fyrir framan okkur nýfarin út úr vagninum þegar barnið sagði, stundarhátt: "Þessi kona var nú ekkert mjög falleg!"

Í kringlunni krúsuðum við búðir af miklum móð. Keyptum afmælisgjafir handa Hraðbátnum, sem á afmæli eftir viku, og ungu dömunni sjálfri, sem var ekkert mál að gera þó hún væri með þar sem hún var alltaf að skoða eitthvað annað. Hún fékk líka slatta af fötum. Sem veitti ekki af. Aðallega tvennar tuskubuxur með breiðri teygju, en daman er með afar krónískan rótararass. Svo fékk hún húfu og vettlinga sem hún varð ástfangin af í Next.

Svo keyptum við bökunarvörur. Aðallega í Kalla kanínuköku.

Þá vorum við orðnar klifjaðar og bankareikningurinn orðinn talsvert léttari og fengum okkur ís (hún) og cappuchino (ég) áður en við fórum heim. Tókum strætó alla leið heim sem þýddi að við tókum 14 næstum á milli endastöðva og vorum lennnngi að. En það var nú í lagi. Nóg að spjalla og yndisleg hverfi að keyra um. (Ég ætla á fasteignavefinn og skoða póstnúmer 104 og 108 í kvöld.)

Þegar við komum heim bökuðum við tvær kökur. Og gaman var nú það.

En það besta af öllu var að geta eytt óendanlega miklum tíma í að spjalla bara við litla miðjubarnið. Það verður að viðurkennast að stóri og litli eru ansi góðir í að ná af henni athyglinni, sérstaklega þarf hún oft að víkja fyrir þeim litla. Nú höfðum við óendanlega mikinn tíma til að spjalla, syngja á almannafæri, taka góðan tíma í að skoða allt sem henni datt í hug og spjalla meira. Hún er á "af hverju"-aldrinum. Það gengur á með spurningaregni allan daginn ef hún fær færi á því. Svo sagði hún mér nokkrar sögur. Hún gerir líka miiiikið af því. (Uppáhaldssagan mín er ennþá sagan um kúkana sem fóru saman í frí í kúkaflugvélinni og fóru til kúka-Egilsstaða.)

Unga skáldkonan verður 4 ára á morgun.
Ég myndi setja inn mynd af henni, en, því miður, tölvan með öllum myndunum er í hvíldarinnlögn hjá Apple.is.

3 ummæli:

Árný sagði...

Til hamingju með hana - æðislegur þessi sögualdur, hér eru sögur af riddurum (honum) með sverð og spjót sem bjarga prinsessunni (mér) úr turninum og hann drepur drekana og vondu riddarana í svörtu fötunum (sem reykja örugglega sígarettur) og og og - algjörlega frábært, og ekki síst að fá svona lúxusdaga endrum og sinnum :) Njótið dagsins!

Lilja sagði...

Það er fátt dásamlegra en að geta átt svona dag "one on one" og leyft barninu að njóta sín í botn! Þau hafa svo mikla þörf fyrir að fá að hafa mann út af fyrir sig stundum!
Já æðislegur þessi sögualdur - hér er sá næstyngsti líka á kúka - og pisstímabilinu! Til hamingju með afmælið hennar!

Nafnlaus sagði...

104 rokka :)

Hrafnhildur, sem lenti einmitt líka í því að eignast þrjú börn, nema hvað ég náði því á 2 og 1/2 ári. En nú eru þau orðin stór og ég hef aftur tíma til að lesa blaðið.