1.2.10

Föst tök

Kominn febrúar bara.

Sjitt hvað þarf að fara að taka margt föstum tökum. Megrunin hefur til dæmis staðið algjörlega í stað síðan um jól. Og örugglega ekki gengið sérstaklega vel í tvöfalda barnaafmælinu um helgina. Þrátt fyrir 10 kílómetra hlaup í gærmorgun.

En nú er kökusukk jóla og barnaafmæla á enda og best að taka til óspilltra málanna. Takmark mánaðarins febrúar: Að fara niður fyrir 70 kíló. Þó ekki sé nema niður í 69 og hálft. Til þess þarf að nenna að hreyfa sig og éta minna og hollara. Best að panta sér Herbalifedót í dag.

Já, við afmæluðum litlu börnin um helgina. Þá er bara eftir afmælisdagur Hraðbátsins, en hann er á miðvikudaginn. Þar með lýkur afmælisvikunni ógurlegu, þetta árið. Afmælin voru ljómandi skemmtileg og heppnuðust afgerandi vel. Rannsóknarskip er enn dáleiddur úr hamingju yfir að Hraðbátur skuli hafa eignast Liverpool-náttföt. Ég efast um að ég fái nokkurn tíma að þvo þau, einu sinni. Þau verða bara höfð í stöðugri notkun. Enda er sá stutti búinn að læra að steyta hnefann upp í loftið og hrópa: Liverpool! Af allri innlifun hjartans. Þá fannst Freigátunni kominn tími til að jafna í liðunum og sagði mér, í óspurðum fréttum, að hún ætlaði þá bara að halda með Everton með mér.

Helst vil ég líka klára orðræðigreiningarritgerðina mína í þessari viku. Allavega svona nokkurn veginn. Til þess þarf að nenna að vinna í vinnunni. Hmmmm.

Annars er nú alltaf hressandi þegar það er farið að birta bara svona um 10-leytið.

Sá leiksýningu um helgina. Munaðarlaus. Ljómandi gott stykki og flott vinna hjá krökkunum. Liggur við að það heyri til undantekninga að maður sjái leikrit sem eru bara svona "venjulega" unnin. Eftir einhvern einn. Ekkert dívæs eða dót. Bara... leikrit. Hressandi. Sérstaklega þegar þau eru góð.

Smábátur kemur frá norðrinu í dag. Upphefjast þá mikil venjulegheit fram að norðurferð fjölskyldunnar í vetrarfríi, 17. - 21. febrúar.

Alltaf frekar gaman að svoleiðis.

Engin ummæli: