12.1.10

Funny side up!

Þá er allt orðið venjulegt heima hjá okkur. Eða svoleiðis. Reyndar brast á með afmælatörn um helgina, barnaafmæli á laugardegi og sunnudegi. Svo verður hið árlega handbolta-afmæli hjá Freigátu og Hraðbáti eftir svona 3 vikur. Veisluna þeirra ber alla jafna upp á handbolta-úrslita-helgi og leikurinn er í beinni í ættingja-afmælinu sem er alltaf á sunnudeginum. Afar mikil hefð í þessu, eitthvað.

Smábáturinn er í prófum, og þar með Rannsóknarskip í yfirsetum, þessa dagana. Eldri partur fjölskyldunnar tekur talsverðan þátt í því. Í gærkvöldi voru ábendingarfornöfn svínbeygð í akkorði fyrir framan sjónvarpið þar til unglingurinn kvartaði yfir úrbræðslu í heila. Sem er ekki gott þar sem hann þarf að fara í heilarita í dag vegna krampa sem hann fékk í síðustu viku. Við höldum í vonina að það hafi bara verið einhver misskilningur í taugaboðakerfi (eða lítilleg úrbræðsla í skólabyrjun) en hann þarf að fara í einhverjar rannsóknir og hitta taugalækni í þessari viku. Drengurinn er með ólæknandi hjartasjúkdóm. Mér finnst það nú eiginlega alveg nóg fyrir eitt barn af alvarlegum og krónískum heilsuveilum til að díla við. En þetta nýja ku ekki tengjast því neitt. En við vonum það besta og gerum grín að öllu saman heima hjá okkur, eins og okkar er von og vísa. Vonum að þetta sé ekki eitthvað annað, krónískt og alvarlegt.

Litlu tvö eru hæstánægð með að vera komin heim eftir jólaflakkið. Leika sér með jólagjafirnar, enda þarf að jaska þeim dáldið úr áður en afmælisgjafir koma. Nú eru þau bæði á ferlega fyndnum aldri og ótrúlegustu setningar geta oltið upp úr þeim. Freigátan kom heim í gær með öll fötin sín alveg drullug upp fyrir haus. Hún hafði verið í svínaleik úti. Foreldraviðtal er hjá Hraðbáti á fimmtudaginn, þá fæ ég að vita hvernig hann hagar sér, en hann er hæstánægður á leikskólanum. Brunar inn fyrir eigin vélarafli um leið og ég er búin að plokka af honum fötin og lítur ekki einu sinni við. Svo er hann líka voða glaður að koma heim aftur þegar við sækjum hann. Honum fór mikið fram að tala um jólin og er núna farin að segja heillangar setningar. Hann þyngdist líka helling og er nánast kominn aftur upp í það sem hann var fyrir veikindi.

Þetta er svona orðræða. Núna er ég að skrifa orðræðu af því að ég er ekki að nenna að byrja að lesa orðræðugreiningarbækurnar sem eru í fjöllum á borðinu mínu. Í þessum mánuði liggur nefnilega fyrir að skrifa sjálfstætt rannsóknarverkefni um orðræðu og orðræðugreiningu. Minna leiðinlegt en ég bjóst við, svosem... enda er ég alveg að bruna í gang þennan morguninn.

Einntveirog ... drrrunnnn!

Engin ummæli: