12.1.10

Hvað er málið með hrakspárblætið?

Ég er að verða brjáluð á þessari tuggu um að "menntafólk" sé allt að fara til útlanda. Mér finnst menn ekki vera að hugsa þessa kenningu alveg til enda. Flestir þeirra sem ég þekki sem hafa freistað gæfunnar erlendis vegna kreppunnar eru verkafólk. Eða starfar allavega sem slíkt erlendis. Það er nefnilega auðveldara.

Það er alveg sama í hvaða fagi maður er með háskólamenntun. Þau fög eru alltaf tungumálstengdari en önnur. Byggja meira á að gjörþekkja málheim síns fags á viðkomandi tungumáli. Ég lærði bókmenntafræði að hluta til í Frakklandi. Ég gæti ekki skrifað bókmenntagrein á frönsku til að bjarga lífi mínu. Né heldur nokkru öðru erlendu tungumáli nema kannski ensku. Líklega geta flestir bjargað sér á ensku. Enda er samkeppnin um störfin í enskumælandi löndum gríðarlega hörð þar sem þar er við allan heiminn að etja.
Ég myndi frekar óttast verkamannaskort á Íslandi heldur en mikinn útflutning menntafólks.

Svo er líka bara hunderfitt að búa í útlöndum. Bara að lifa á öðru tungumáli, í öðru samfélagi, alveg sama þó maður kunni málið ágætlega. Ef maður ætlar að flýja land út af vöntun á "neyslusamfélagi", fara frá fjölskyldunni, vinunum, æskustöðvunum, til að geta keypt sér ódýrari gallabuxur, þá eru menn bókstaflega að selja ömmu sína.

Svo er þetta orðað gríðarlega dramatískt.
Menn FLÝJA LAND!
Maður er látinn sjá fyrir sér fólk á flótta frá stríðshrjáðum svæðum.
En allir koma aftur. Allavega í heimsókn. Og ef við höfum ekki vinnu fyrir fólk. Er þá ekki allt í lagi að menn leiti fyrir sér annarsstaðar? Það er búið að finna upp flugvélina. Það er fært til baka. Við erum ekki að tala um vesturferðir 19. aldar.

Ég sé alveg fyrir mér að flýja land. Ef ég sé að menn séu að skera niður heilbrigðis og menntakerfi þegar aðrar leiðir eru færar. Finna almennilegt velferðarsamfélag. En það er ekki eitthvað sem er svo léttvægt að það sé hægt að hóta því bara sísvona. Ástandið þarf að vera orðið mjög alvarlegt til að maður íhugi það. Án þess að ætla sér að koma til baka.

Að því sögðu er rétt að taka fram að við stefnum á að skreppa til Kanada ca. 2012 - 2014. En við höfum hugsað okkur að koma aftur. Og hugmyndin er frá því fyrir hrun. Fólki datt nefnilega líka alveg í hug að flytja til útlanda þá, sko.

Mér finnst við hafa meira aðkallandi mál að hugsa um en að velta fyrir okkur hvað "fólk" gerir eða gerir ekki ef "lífsgæðum" (verði á gallabuxum) fer mikið aftur á Íslandi.
Eitt af því er EKKI gjaldþrota bankareikningar með merki í einhverjum viðbjóðslegum pastelstöfum. (Hvaða fáviti ætli hafi annars hannað það hlandbláa ógeð?)

Þeir sem fara, fara. Þannig verður það bara. Það er eitt af því sem þýðir ekkert að fara að grenja yfir.
Allavega ekki fyrirfram.

2 ummæli:

Árný sagði...

Heyr, heyr! Og við komum aftur og við ákváðum fyrir löngu að flytja út - ætluðum að fara í haust 07 eða vor 08. En við komum heim aftur og það er ekkert grín að búa í útlandinu þó það sé gaman um stund :)

Nafnlaus sagði...

Ég fer ekki fet, og flý ekki heldur.

cloitier /Hrafnhildur