10.2.10

Frekir kallar!

Nú þykja þeim sem mig þekkja það líklega mikil tíðindi, sem það vissulega eru, að ég er farin að brúka íþróttasal Háskóla Íslands 6 sinnum í viku. Og ég er ekki einu sinni að ljúga þessu eða ýkja neitt. þrjú hádegi í viku er leikfimi, tvisvar í viku er jóga og einu sinni í viku leigjum við hérna á þriðju hæð í Gimli salinn og djöflumst í einhverjum bolta. Það er algjör snilld að vera farin að nota þetta hús. Þangað til í haust var þetta eina háskólabyggingin sem ég hafði aldrei komið inn í.

En eitt böggar.

Þegar kallar eru í tímanum á undan djöflast þeir alveg þangað til tíminn er örugglega búinn. Oftast þarf að hringja á þá. Við konur bíðum úti á gangi, prúðar og kurteisar eins og reglur mannasiða kveða á um. Sveittir strákar ryðjast úr. Oft illyrmislegir á svip. Heilsa aldrei. Hvað þá að þeir biðjist afsökunar á að hafa farið fram yfir tímann. Fyrir þeim er gangurinn tómur, þó þar sé ekki þverfótandi fyrir kellingum á leið í jóga. Á fimmtudögum er stelpubolti. Þær hætta alltaf á réttum tíma, að sjálfsdáðum. Heilsa meiraðsegja á leiðinni út. Kinka allavega svona kolli og meðtaka söfnuðinn sem á veginum verður.

Það eru kallar í salnum á eftir öllum tímunum sem ég er í. Jóga endar á slökun og íhugun. Ja, eða á að gera það. En svona síðustu fimm mínúturnar af tímanum eru kallarnir farnir að naga þröskuldinn og eiga í háværum hrókasamræðum frammi á gangi, um hvort „kellingarnar“ séu nú ekki að verða búnar að „hvíla sig“.

Á eftir öllum tímum fara kallar í bolta. Byrja samstundis og þeir sleppa inn í salinn. Kvensurnar, margar hverjar 50+ eiga fótum fjör að launa. Kallar eru mættir, blindir og heyrnarlausir af frekju og testósteróneitrun.

Sé nú haft í huga að frekja og testósteróneitrun hefir nýverið sett þjóðfélagið á hausinn, væri þá ekki kannski íhugandi hvort karlmenn úr hinu óstjórnlega vitiborna hámenningarsamfélagi æðstu menntastofnunar landsins gengju á undan með góðu fordæmi, tækjumannasiðina með sér í íþróttahúsið og slökuðu á í boltanum, svona rétt þessar 2-4 mínútur sem konur á aldri við mæður þeirra og ömmur væru að GANGA FRÁ FOKKÍNG JÓGADÝNUNUM SÍNUM?!?

1 ummæli:

Varríus sagði...

Pakk