11.2.10

Maybe I Should Have

Ágætis mynd. Merkilegt að sjá hvernig Tortola lítur út. Annars kom svo sem ekki margt í henni á óvart. Landslagsklámið og fjallkonan pirruðu mig pínu, þó mér þættu Fjallabræður flottir. Mér finnst einhvernveginn póllinn að það megi ekki FARA SVONA með OKKUR af því að VIÐ búum í svo FLOTTU LANDI, ómerkilegur. Athugum að við erum ekki fyrsta þjóðin sem fávitar setja á hausinn. Suður- Ameríka, til dæmis, meira og minna.

En ef fávitaskapurinn á Íslandi verður til að vekja athygli, á norðurhveli, á þeirri geðbilun sem heimskapítalisminn er, þá er hann vel þess virði. Þó maður þurfi eiginlega að gubba eftir hvern fréttatíma þessa dagana. Þannig að væmið landslag, Þingvellir og sjálfstæðistáknmyndir eiga ekkert frekar uppá pallborðið hjá mér nú en endranær. Mér finnst þjóðarhugtakið ekkert merkilegt og fátt hafa orðið heimsbyggðinni og þróun mannkyns til meiri trafala. Nema kannski trúarbrögðin og peningakerfið.

Allt um það. Maybe I should have er samt skemmtileg ferðasaga. Stundum hefði ég viljað sjá Gunnar spyrja meiri og erfiðari spurninga. Og það sem mig langaði ekki að sjá Björgólfi Thor heilsað að sjómannasið... En þessi mynd var ekki gerð til að fullnægja manni neitt. Frekar til að vekja spurningar. Eiginlega var þetta bara byrjunin. Gunnar þyrfti að fá meiri styrki undireins til að halda áfram ferðinni. Hún er bara rétt að byrja. Hann þyrfti til dæmis kannski ekkert að fara svo langt í næstu mynd. Bara í bankana og heim til Hrunkónganna. Og Davíðs, kannski.

Ef einhver er að hugsa um að bíða eftir DVD-inu mæli ég tvímælalaust með dobbúl fítjör.
Maybe I should have og Capitalism, A Love Story. Í þessari röð. Ef menn eru ekki búnir að fá nóg eftir það má síðan bæta Zeitgeist Addendum við. Eftir þann þríleik held ég að menn hljóti að stimpla sig út úr peningakerfinu. ;)

Annars er það merkilegt að þó Geir H. Haarde hafi þótt gera fátt í eftirhruninu, þá virðist hann nú samt vera helsti frasasmiður þess. Guð blessi Ísland, Maybe I should have.
Hann virðist allavega eiga titlana á hrunmyndunum...

2 ummæli:

Berglind sagði...

Ég sé að ég hef gert kannski aðeins minni kröfur en þú. Mér fannst myndin öll mjög spontant (spontön?) og Gunnar halda fast í peningaþráðinn. Svo sagði hann við gaurinn hjá Transparency International að hann væri bara mjög svekktur og fyndist hann svikinn, að Ísland hefði óverðskuldað fengið stimpilinn óspilltasta land í heimi - og gaurinn hafði aldrei upplifað aðra eins hreinskilni.

Ég bjóst aldrei við öllum svörunum, bara þessari einlægni. Og ég snarféll fyrir kórnum, sem kór, ekki sem náttúrusölu. Og ég vissi ekki að ég kynni ... gott að meta.

Hvaða fleiri góð slagorð eru eftir? Er ekki einhver texti um sölu áfengis í matvöruverslunum ónotaður?

Varríus sagði...

Man ekki hvort einhver minntist á eftirfarandi frasa í umræðunni um eftirminnilegar hrunsetningar fyrr á þessu bloggi, en Megast á að vera þar í einum af efstu sætunum fyrir þessa frábæru línu úr Paradísarfuglinum sem annarhver maður hefur tekið sér til bloggs:

"Afsakiði meðan að ég æli"

Og þá er líka um að gera að rifja upp hver er næsta lína á undan í textanum - óneitanlega spámannlega vaxinn hann Eyrnastór.