20.2.10

Sveitasælan

Það er næstum óheilbrigt hvað við erum að hafa það gott. Við hjónin skiptumst á að sofa syndsamlega lengi á morgnana. Þau litlu eru búin að hitta kindur og ketti og hnoðast heilmikið úti í snjónum. Freigátan er þar að auki búin að taka eina flugferð niður stigann og fara í Freyvangsleikhúsið og sjá Dýrin í Hálsaskógi. Það gerði nú aldeilis lukku.

Fermingarundirbúningsfundur með hinum helmingnum af foreldrateymi Smábátsins var frábær og nú eru veislurnar ógurlegu næstum ekki óyfirstíganlegar lengur. Sem er eins gott. Við Rannsóknarskip erum bæði að skipuleggja leikstjórn (ir?) sem hefst núna og stendur næsta mánuðinn eða svo.

Þegar maður fer svona út úr heiminum, vinnur ekki, sefur nóg, þá fer hausinn á manni á heilmikið flug. Ég er til dæmis búin að skipuleggja sumarið, svona í meginatriðum, og er í endalausum valkvíða um hvort ég á að:
- Fara á Leiklistarskóla Bandalagsins í júní, og ef ég fer, á hvaða námskeið ég á að fara þar sem ég held að tvö verði í boði sem mig langar á.
- Sækja um að fara á geðbilað höfunda-rítrít á Ítalíu í júlí sem bandarískt experímentalleikhúsbatterí heldur. Myndi ekki vita hvort ég fengi inni fyrr en 1. júní og kostnaðaráætlun hljóðar uppá hálfa milljón.
- Hvort ég ætti kannski ekkert að vera að fara neitt þar sem ég þarf að yfirgefa fjölskylduna í viku í ágúst og halda Norður-Evrópska leiklistarhátíð á Akureyri.

Sem sagt. Fyrir utan valkvíðann, og leikstjórnarplönin, og ferðirnar út í snjóinn að þreyta börnin, erum við að slappa ferlega af. Erum reyndar að missa af svo mörgum afmælum, viðburðum og allskonar í bænum að annars hefði þetta líklega verið annasamasta helgi ársins. En þetta er alveg nauðsynlegt líka.

Á morgun verður brunað í bæinn, eftir hádegi.

Engin ummæli: