15.2.10

Uppfokk

Ég hef ekkert montað mig af heilsuræktarbyltingunni nýlega. En það er ekki þar með sagt að hún fari eitthvað dvínandi. Bara orðið svo innbyggt í lífið að gúlla í sig Herbalife í 2/3 mála, hlaupa svona 3svar í viku, stunda kellingaleikfimi í hádeginu, jóga tvisvar í viku og bolta með hinum kjellingunum á hæðinni einu sinni í viku, að það þarf ekki að taka það fram. Og þó þetta sé kannski orðinn dágóður slatti, þá verð ég alveg dragúldin ef ég missi af einhverju af þessu.

En nú er orðið kalt. Og ég fattaði það ekki þegar ég fór út að hlaupa í gær. Með þeim afleiðingum að liðamót uppfokkuðust í hrönnum og bættust við allskonar uppsafnaða stífni frá þorrablóti um síðustu helgi, einum fótbolta á vitlausum skóm frá vikunni á undan, og hinu og þessu.

Enda er ég að hugsa um að gera nokkuð byltingarkennt um næstu helgi. Við erum að fara norður miðvikudag til sunnudags. Ég ætla hvorki að taka Herbalifið né hlaupaskóna með. Og helst ætla ég lítið að nenna að fylgjast með fréttum, heldur.

Semsagt, afeitrun og mýking í hvívetna!

Engin ummæli: