14.3.10

Í hrunsfríi

Eftir viku fréttafrí kom ég algjörlega fersk að Silfri Egils í dag og var harla glöð með allt sem allir höfðu að segja. Datt sisvona í hug hvort ekki væri ráð að stofna alþjóðlega efnahagsrústabjörgunarsveit. Eva Joly gæti verið í henni. Og Alex Jurshevski. Og svona hinir og þessir sem við erum búin að vera að fá til ráðgjafar (og mismikið búin að hlusta á, og svona).

Annars stend ég við mína spá. Kreppan á eftir að verða miklu verri áður en hún byrjar að skána (ég held reyndar að við finnum mjög lítið fyrir þessu, ennþá) og kannski verður hér ástandið orðið nokkurn veginn eðlilegt svona um 2025-2027.

Ég er enn viss um þetta vegna þess að menn ætla enn að joinka okkur út úr þessu með aðferðum góðæris. Stóriðju. Þenslu. Fjárfestum. Nýju góðæri. Fáir reyna að hugsa málin til enda og margir hlusta bara á þann sem á flottasta frasann þá vikuna.

En það er ágætt að taka svona Hrumræðufrí annað slagið. Þreytandi að vera hálfbrjálaður alltaf stöðugt. Líklega ætti maður bara að gera það oftar. Safna orku fyrir byltinguna. Ef einhver segir eða skrifar eitthvað merkilegt er líklegt að það leki yfir á Feisbúkk...

Engin ummæli: