Það er ein og hálf vika í fermingu.
Og hverju í rauðglóandi víti eiga mæður fermingarbarna að íklæðast á stóra deginum? Ég er (fjandi) hrædd um að öll mín spariföt séu of dræsó.
Best að samræma aðgerðir við hina fósturmóðurina og rifja upp hvernig málin voru leyst við skírnir hinna barnanna. Er þetta ekki nokkuð sambærilegt? Nema núna fær maður ekkert tilfinningalegt svigrúm til að vera feitur?
Ég bara kann þetta ekki neitt.
Fermingabarnið er annars úti á kvennafari. Fór í bíó með fjórum stelpum. Og veit að nú er honum vissast að vakna við allrafyrsta hanagal í fyrramálið með bros á vör og spaugyrði á vörum. Annars er ólíklegt að leyfisveitingar verði fyrir þessu í framtíðinni. Annars gengur mun betur að vekja hann síðan ég útskýrði fyrir honum að hann væri hreint ekki einn um að vera síst morgunmaður á heimilinu. Við hjón værum einnig alvarlega laus við þá dyggð, satt að segja alveg hundgeðvond ef við þurfum að skreiðast á lappir mikið fyrir hádegi, tala nú ekki um að þurfa að draga allt að þremur geðvondum ungum frammúr... Smábátur náði því og skildi vandamálið. Og hefur leitast við að vera þægilegur viðskiptis í morgunverkunum síðan.
Annars er ég enn að reyna að ná mér eftir styrkumsóknir. Sem betur fer liggur fátt og einfalt fyrir í þessari viku. En það getur verið að ég taki hreinlega föstudaginn í svefn. Og um helgina skal stóri hringurinn hlaupinn ógurlega.
Páskafríið verður kærkomið. Veisluhöld og sushi-smíði verður skemmtileg tilbreyting. Skemmtileg tilbreyting líka að hafa samskipti við heilmikið af fullorðnu fólk. Bara alveg allan daginn. Venjulega tala ég við næstum engan allan daginn og svo aðallega börn eftir að ég kem heim. Á kvöldin liggjum við Rannsóknarskip svo örmagna fyrir framan Battlestar Galactica (þessa dagana). Semsagt, lítið um samskipti við fullorðið fólk. Best að glöttona á því um helgina.
Ég er að detta inn í framtíðina. Það gerist þegar ég er of þreytt til að meika nútíðina. Eða kannski er þetta bara Kiljan.
17.3.10
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli