7.4.10

Ferðabókanir

Eftir að hafa þvælst um frumskóga þess sem þarf að skipuleggja ferðalög erlendis í kreppunni finn ég mig knúna til að setja inn nokkur hint og linka. Nú er ég búin að vera í svona mánuð að reyna að koma því heim og saman hvernig ég á að fara á ráðstefnu í München í lok júlí án þess að fara á hvínandi höfuðið. Og fyrsta góðráð er:

- Að gefa sér gríðarlega mikinn tíma til að spá og spekúlera.

Ég hef brúkað heilmikið vefinn dohop.is til að grennslast fyrir um ódýrustu ferðaleiðir en það er ágætis yfirlitsvefur. Þó endaði með því að ég datt ofan á bráðgott tilboð á næturflugi beint frá Keflavík til München, aðfaranótt ráðstefnunnar og krækti í síðasta sætið. Keflavík-München á 26.000 kall. Hefði reyndar getað flogið aðeins ódýrara með Icelandexpress og Easyjet, en það hefði þýtt að leggja af stað hálfum degi fyrr og nótt á hinum bráðskemmtilega Gatwick flugvelli auk þess sem maður fær að éta í Flugleiðavélum. Og eins og það kostar í útlöndum þá getur það alveg talið nokkra þúsundkalla.

- Það borgar sig að skrá sig á nettilboðalistann hjá Icelandair. Aldrei að vita nema það sem mann vantar detti inn.
- Með því að ferðast á nóttunni báðar leiðir sparar maður tvær nætur í gistingu. Sem er slatti.

Í München ákvað ég að spreða á mig eins manns herbergi. Það er þó bara á svona hóteli sem er heimavist á veturna. En það mikilvæga er að það er í göngufæri við ráðstefnuna. Allt í útlöndum kostar nefnilega formúgu fyrir íslenskar krónur í dag. Þar á meðal almenningssamgöngur. Með því að ferðast á nóttunni báðar leiðir kemst ég af með þrjár nætur í gistingu og greiddi fyrir þær 17.000 kall. (Með morgunverði.)

Heimferðin er óbókuð enn. Það kemur til af því að ekki er hægt að bóka lestarferðir með minna en 3 mánaða fyrirvara. En í lok mánaðarins hyggst ég tryggja mér beð í næturlest frá München til Kaupmannahafnar hvaðan ég mun taka kvöldflug með Icelandexpress kvöldið eftir. Um þrjátíuþúsundkall. Þ.e.a.s., nema Icelandair detti í hug að poppa upp með góðan díl til baka í millitíðinni.

En lestir eru snilldarferðamáti. Og þá fær maður smá ferðalag út úr þessu í leiðinni.

Með ráðstefnugjaldi og öllusaman held ég að kostnaðurinn sé ennþá hérnamegin við hundraðþúsundkallinn. Sem er um helmingi lægra en á horfðist í fyrstu. Eitthvað er reyndar eftir að éta og drekka og svona ... í dýrustu borg Þýskalands ... en vaxtabæturnar verða bara að standa undir því!

4 ummæli:

BerglindS sagði...

Það stefnir sem sagt í að þú verslir við Pálma í Fons ... varla sársaukalaust.

Sigga Lára sagði...

Ég er ekki búin að því enn... Liði ögn betur ef Icelandair dytti inn með tilboð.

Annars eru flugfélög á pari við tryggingafélög og símafyrirtæki að því leyti að maður kemst ekki úr landinu flugleiðis án þess að versla við glæpamenn.

AgnesVogler sagði...

Síðast þegar ég flaug (og þarsíðast) var Icelandair hætt að fæða farþega og svalaði bara sárasta kaffiþorstanum ókeypis. Hefur það breyst aftur?

Sigga Lára sagði...

Ég fékk allavega vel og kirfilega að éta á leið til og frá Færeyjum síðasta vor.

En það væri svosem eftir öðru að búið væri að leggja það niður.

Sparast samt talsverður fæðiskostnaður í óskilgreindu útlandi við beint flug og hálfum degi skemmri dvöl erlendis.