18.5.10

Besti flokkurinn – Miklu meira en grín

Þeir sem hamast gegn framboði Besta flokksins þessa dagana beita því gjarnan fyrir sig að tala um grínframboð eða jafnvel "bara eitthvað grín." Ég held að þarna sé þó um talsvert merkilegra fyrirbæri að ræða.

Það sem talsmenn Besta flokksins hafa verið að gera, með góðum árangri, er að afhjúpa orðræðu stjórnmálanna. Þeir taka stjórnmálin og gera úr þeim háðsádeilu, án þess í raun að breyta mjög miklu. Taka taktíkina, ræðuna, kosningaskrumið og ganga ekki nema örlítið lengra. Sýna fram á að hvaða fáviti sem er getur tileinkað sér þennan málheim, og varpa ljósi á hversu innantómur hann er.

Borgarahreyfingin og önnur sérframboð hafa líka verið nefnd í þessu samhengi og menn spyrja gjarnan hvers vegna fólk kjósi þá ekki frekar "sérframboð með viti" heldur en að "fleygja atkvæði sínu" í "eitthvað grín." Svarið við því er einfalt. Gengi Borgarahreyfingarinnar í síðustu kosningum var ágætt, en skipti engum sköpum. Ástæðan fyrir því er sú að það er ekki enn búið að ryðja pólitíkinni úr vegi, eins og hún hefur verið stunduð. Menn komast enn upp með klisjurnar, innantómu loforðin og að berja sér á brjóst fyrir það sem þeir telja sig hafa gert gott og jákvætt á síðasta kjörtímabili, þó þar hafi allt verið í skítnum. Svo sem eins og nú er að gerast í Reykjavík. Eigum við eitthvað að ræða sölu HS, Geysi-Green-Magma skandalana, fjóra borgarstjóra á launum í einu, styrkjakónginn í námi í útlöndum og svo framvegis?

Svo ætlar fólk að fara að væla um börnin? Bíddu, hvað gerðist við hrunið? Jú, það var byrjað á að skera rækilega niður í skólum og leikskólum, sem fyrir voru undirmannaðir og undirlaunaðir. Já, ég trúi því alveg fimm sinnum að þetta pakk ætli að fara að "hugsa um börnin" meira en Jón Gnarr og félagar.

Besti flokkurinn er fólk sem er óreynt í stjórnmálum. Að vissu leyti. Virðist þó sjá í gegnum skrumið og á aldrei eftir að geta notfært sér hina pólitísku orðræðu í neinni alvöru. Fyrirsjáanleg útkoma? Þegar þau verða komin í borgarstjórn verða þau að segja satt. Og á mannamáli. Um leið og þau nota tungumál pólitíkurinnar eru þau farin að grínast.

Ástæða þess að "alvöru" sérframboðum gengur ekki neitt er sú að pólitíkin, fjórflokkurinn, hin pólitíska orðræða sem nokkrir valdagráðugir einstaklingar hafa smíðað sér á undanförnum fimmtíu árum, lifir góðu lífi. Til þess að eitthvað nýtt geti rutt sér til rúmst þarf að moka flórinn. Kasta sprengju inn í hina pólitísku umræðu. Smassa hana í mask.

Og Besti flokkurinn er sprengjan. Þegar búið verður að moka flórinn skapast rými fyrir framboð "með viti" til að vaxa og dafna og láta til sín taka. Þá verður hægt að fara að meta stjórnmálamenn af öðru en litnum á skruminu. Það er nefnilega ekkert sérstaklega mikill munur á kúk og skít, hvaða hugmyndafræði sem menn þykjast hafa að leiðarljósi, þegar allir þurfa að hamast áfram á sérgæskunni og hrokanum.

Ég held að þetta "grín" verði afdrifaríkara en nokkurn grunar og ég sé ekki hvernig það á að verða til annars en góðs.

---

Viðbót – The Wire

Besti flokkurinn mun ekki ganga til meirihlutasamstarfs við neinn nema þá sem séð hafa þættina The Wire. Það er ekki tilviljun að talað er um þessa sjónvarpsþætti, en ekki t.d. Friends eða Sex and the City. The Wire fjallar um vanmáttugt rannsóknarteymi í Baltimore sem rannsakar umfangsmikla glæpastarfsemi sem í raun stjórnar samfélaginu. Þaðan er til dæmis frasinn, nokkurn veginn orðréttur: „Follow the drugs and you get drugdealers. Follow the money and you have no idea where you end up.“ Eiturlyfjahringirnir, pólitíkusarnir, fjölmiðlarnir, krakkarnir... allir í samfélaginu koma við sögu.

Allir Íslendingar í dag þyrftu að sjá The Wire. Sérstaklega stjórnmálamenn.

3 ummæli:

Teitur Atlason sagði...

Heyr! Heyr!

Nafnlaus sagði...

Vel ritað!

HS

Spunkhildur sagði...

Ég ætla að kjósa besta flokkinn af því að hann ætlar að gera "helling fyrir aumingja" og af því hann er eina stjórnmálaaflið í þessu landi sem er ekki búinn að taka mig í rxxxxxxxx....