21.5.10

Bylting Venjulega Fólksins

Var að lesa lýsingu á þætti sem Auddi og Sveppi eru að gera þar sem þeir ætla að safna milljón til styrkjar Mæðrastyrksnefndar. 250 kall frá fjórum fyrirtækjum sem hvert um sig fær að velja eitt útúrkorti atriði til að hafa í þættinum.

Mottumars var snilld. UNICEF-ævintýrið í vetur líka. Listahátíð barna. Þjóðfundir, borgarafundir, umræðufundir, samtök um allan fjandann í þjóðfélaginu spretta upp eins og gorkúlur. Fólk pælir í hlutunum, kemur með allskonar hugmyndir um þjóðmálin, stjórnmálin, skipulag á öllu milli himins og jarðar. Ég nenni ekki einu sinni að telja allt sniðugt upp sem maður hefur heyrt af. Yfirhöfuð hefur fólk sýnt það eftir hrun að það er ekki allt í volli og það er alveg ferlega margt hægt.

En í fréttum er yfirleitt eitthvað alltannað helst. Efnahagsmál. Stjórnmál. Einhver loðin mál sem ku skipta ferlega miklu máli og enginn hefur vit á nema sérfræðingar... já, og stjórnmálamenn. Merkilegt hvað menn ku hafa vit á mörgu eftir að hafa verið í Morfís síðan þeir mundu eftir sér. Fólk úti í þjóðfélaginu öskrar sig hást. Bíddu, eigum við að borga klúðrið ykkar? Afhverju eruð þið ennþá með grilljón í mánaðarlaun? Af hverju eru sömu fávitarnir enn að stjórna bönkunum? Af hverju eiga sömu glæpamennirnir ennþá fyrirtækin sín?
Afhverju ERUÐ ÞIÐ ENNÞÁ ÞARNA?!?!

Venjulega fólkið er að gera allskonar. Það er bara alls ekki helst í fréttum. Í fréttum er glæpamafían og valdaklíkan. Sami grautur í sömu skál og heldur kjötkötlunum vandlega fyrir sig. Vill alls ekki skipta jafnt. Kunningjar og vinir í stöður hjá ríkinu, í atvinnuleysinu. Þaðldégnú. Óbreytt ástand hversu rækilega sem menn eru búnir að skíta á sig.

Eini maðurinn sem virðist vera að gera eitthvað af viti í málum hrunara lætur ekki mikið yfir sér. Er aldrei montinn í fjölmiðlum. Bara ferlega venjulegur. Sennileg er Sérstakur saksóknari venjulegast maður á Íslandi.

Venjulega fólkið hefur þegar reynt að stíga á stokk í pólitík. Tala mál stjórnmálaflokkanna, sigra þá í eigin leik. En ekki átt erindi sem erfiði. Enda er leikurinn riggaður, asnalegur og frátekinn fyrir þá sem kunna að Morfísa sig út úr hlutunum, segja ekkert og gera fátt. Afsaka spillinguna fyrir sjálfum sér með fjarstæðukenndum rökum. Löngu búnir að missa alla tilfinningu fyrir því hvað er eðlilegt of hvað óeðlilegt í viðskiptum, vinavild, styrkjum frá fyrirtækjum... lífinu.

Og nú erum við á leiksýningu. Jón Gnarr er í hlutverki sakleysingjans úr "Ég var einu sinni nörd." Ofursakleysingi sem ætlar að leika leik stjórnmálamannanna en fattar ekki að hann á ekki að segja frá því að hann langi bara í þægilega innivinnu. Fíflið sem segir sannleikann, í Shakespeare. Þegar hann verður kominn í borgarstjórn (hvort sem félagar hans verða einn eða átta) finnst mér líklegt að hann segi sannleikann um hvernig er að vera í borgarstjórn. Hælir sér af því hvað hann þarf að vinna lítið og svona. Vitnar í The Wire þangað til allir á Íslandi verða búnir að freistast til að horfa á þá þætti og fatta að við búum í Baltimore. Stundum þarf að draga upp ýkta mynd til að fólk sjái raunveruleikann. Og þori að stíga skrefið til fulls.

Margir eru hræddir. Vita ekki hvað við fáum í staðinn spillingarliðið. Það er ekkert skrítið. Málheimur stjórnmálamannanna hefur um langt skeið verið algjörlega óskyldur neinu sem venjulegt fólk skilur. Og margir halda að til þess að stjórna landinu þurfi menn að hafa tök á þessu umræðuformi. Hafa verið í Morfís og JC. Ég held að það sé ekki rétt.

Menn benda líka á þá staðreynd að það eru ekki ALLIR stjórnmálamenn spilltir. Margir eru afar sárir fyrir hönd sinna flokka. Sinna frambjóðenda, sem eru kannski ekkert vont fólk. Vandamálið er að aðferðirnar sem notaðar hafa verið til að greina góða stjórnmálamenn frá slæmum virka alls ekki. Virka reyndar alveg þveröfugt. Gott fólk sem hefur áhuga á að vinna samfélagi sínu gagn þarf að tileinka sér nýjar leikreglur. Þegar næsta kjörtímabili lýkur er ekki víst að borgarstjórnarstólarnir verði lengur hlý sæti í þægilegri innivinnu með lífstíðarstarfi í kerfinu. Þeir sem vilja í þessi störf þurfa þá að hafa áhuga á þeim, í alvöru. Stefnumál sem þeir ætla sér að standa við. Tala mannamál.

Staðreyndin er sú að fólkið í borgarstjórn Reykjavíkur og á Alþingi á að vera venjulega fólkið. Fólkið sem þar situr á líka að kunna að gera eitthvað annað. Ekki vera samkvæmt óskráðum lögum æviráðið á ríkisspenanaum og á himinháum eftirlaunum eftir það. Embættismenn borgarinnar og ráðherrar eiga að vera fagmenn. Ópólitískt ráðnir vegna hæfni, hæfis og hlutleysis.

Þetta er ekkert flókið.

„Stjórnmálastéttin“ er á förum.

6 ummæli:

vilborg valgarðsdóttir sagði...

Frábær grein Sigga Lára! Besti flokkurinn mun jafnvel sitja í 4 ár og grínast með borgina - eða ekki - eftir það eru vonandi líkur á að venjulega fólkið fáist til að vinna þá vinnu að móta stefnu sem fagmenn útfæra af heilindum og flokkapólitík verði ÚR SÖGUNNI! Æi við erum svo lítil og "fjölskylduvæn" - maður hefur sínar efasemdir. En það en andskotanum erfiðara yfirleitt að kjósa í þetta sinnið ........................

Nafnlaus sagði...

Má bjóða þér að lesa þetta?
http://www.scribd.com/doc/4891823/Bogota-Mayor-Antanas-Mockus-turned-city-into-a-social-experiment#fullscreen:on

Vala

Sigga Lára sagði...

Takk fyrir þetta, Vala!

Það er nefnilega séns að Besti flokkurinn endi í doktorsritgerðinni minni, svo þessi linkur fer í safnið.

Nafnlaus sagði...

Sigga Lára, þú klikkar ekki nú frekar en fyrri daginn. Frábær pistill :)

Kv.
Elísa Berglind

Ásta sagði...

Hm... Besti flokkurinn er s.s. meðvituð útgáfa af Being There. Var ekki búin að átta mig á því.

Spunkhildur sagði...

Takk fyrir þetta elsku Sigga...glæsilegur pistill ;)