16.5.10

Bjartar nætur

Ég verð alltaf alveg haugþunglynd á þessum árstíma. Sem er alls ekki rökrétt. Ég er kuldaskræfa og finnst æðislegt þegar hlýnar. Björt kvöld og nætur finnst mér alveg jafn unaðsfögur og öllum íslenskum skáldum sem nokkurn tíma hafa vemmað um það.

Og ég held að ég sé að verða búin að átta mig á í hverju þetta liggur.

Í maí er nefnilega alltaf eitthvað alveg fáránlega mikið að gera. Og þessi maí virðist ætla að slá öll met í annríki bæði í vinnunni og menningunni. Sem aftur þýðir að maður sér ekki vorið nema í gegnum stressgleraugun, rétt á leiðinni í vinnuna. Björtu kvöldin sér maður bara á leiðinni á tónleika eða á leiðinni heim úr leikhúsi. Vorið líður hjá í svipmyndum. Þunglyndið líður ekki almennilega hjá fyrr en ég er komin út úr bænum. Sem venjulega hefur verið í Svarfaðardalinn í júní, verður núna í Húnavatnssýsluna.

Ég held það sé sveitavargurinn í mér sem fílar ekki þessa upplifun á vorum. Á vorin myndi ég vilja fá svona mánuð af atvinnuleysi. Þvælast um fjöll og sveitir og fara réttsvo inn til að sofa. Eða vera garðyrkjufræðingur. Eða vera úti í sveit í sauðburði. Alltaf úti og sofa aldrei.

Að vissu leyti hjálpar til að eiga börn. Eftir leikskóla er hreinlega ekki um neitt annað að ræða en að vera áfram úti, á vorin. Þvælast um bæinn og finna rólóa og hluti til að príla á. Þá er það bara að reyna að hunska sér út í gönguferðir á kvöldin, og geðinu ætti að vera nokkurn veginn bjargað.

2 ummæli:

BerglindS sagði...

Lúxusvandamál?

Í gærmorgun fór ég í frábæra skipulagða göngu með leiðsögn um Seljahverfið í besta hugsanlega sumarveðri. Seljahverfið er fallegt hverfi og nú eru fordómar mínir gagnvart úthverfum á undanhaldi. Næsta laugardag ætla ég með sama fróða fólki í göngu um Bryggjuhverfi Grafarvogs og reikna ekki með öðru en gæðaveðri - af því að þannig er maí.

En ég fer eitthvað minna í leikhús og meira í sund.

Nafnlaus sagði...

Jebbs, Seljahverfið er alveg ljómandi hreint, og Bakkarnir líka. Fíla Fellin og Hólana síður.

Mæli annars með Ylströndinni, fór þangað í gær og það var gríðarfínt veður og mjög erlendis.

Hrafnhildur