24.6.10

Alnota gestastofa?

Við systur urðum harla glaðar áðan, að sjá frétt úr nágrenni heimabyggðar vorrar. Nánar tiltekið úr ríkasta sveitarfélagi Íslands, Fljótsdal. Enn nánar tiltekið var fréttin af einhverri góðærisbyggingu í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð sem nú hefur risið á Skriðuklaustri.

(Enda í góðu lagi að Fljótsdælingar byggi þannig. Eina sveitarfélagið sem syndir í peningum.)

En þar endaði fréttaskilningur okkar systra. Híbýlið ku vera "gestastofa" og "alnotahús."
Ég hef heyrt um "gestastofur" en aldrei skilið hvað veraldar ku eiga að fara þar fram. Ég reikna ekki með því að neinn búi þarna, svo allir sem koma þar inn ættu að vera "gestir"... er þá húsið fyrir alla þá sem inn í það koma? Mega allir koma þangað eða bara sérstaklega boðnir "gestir"?
"Alnota" er enn loðnara orð en hið kafloðna "fjölnota" (sem reyndar þýðir yfirleitt bara tónleikar og fundir). Eiga að vera tónleikar og fundir? Er þetta einhvers konar náttúrugripasafn í leiðinni?

Og, kannski spurði Bára syss forvitnilegustu spurningarinnar:
Ætli megi drekka brennivín þarna?

Alnota gestastofa hefur sem sagt risið í Fljótsdal. Og ég er engu nær.

1 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Með því að rýna í þetta orð hef ég komist að eftirfarandi niðurstöðu.

Þetta er sýndarveruleikageimur.

Það er rétt hjá þér að allir sem koma í húsið eru gestir, ef enginn býr þar.

Ef hægt er að nýta þetta rými til alls, þar með talið að ferðast í tíma, kíkja í gegnum svarthol og borða harðfisk án þess að mylja niður á sig mylsnu, þá getur ekki verið um raunveruleikarými að ræða.

Jú, nema þetta sé galdrarými með gvuði og álfum og albínóum?

Blogger segir ardworp, ég legg til að þessum stað verði gefið það nafn :)