22.6.10

Lífið er dásamlegt!

Fór í dag að kaupa föt á ormana. Sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Hraðbáturinn hefur bara allt í einu tekið uppá því að stækka svo allar buxur eru orðnar of stuttar og Freigátu vantaði sumarjakka.

Eftir leikskóla var heilmikið mál að lokka ormana inn, eins og venjulega, og tókst ekki fyrr en eftir hjólatúr og heilmikið japl og jaml. Loks kom að fatasýningu.

Móðurskip breiddi úr varningnum eins og stoltur farandsali. Þeirri stuttu hafði áskotnast, auk jakkans sem vantaði, stuttbuxur og bolur. Freigátan horfði á sýninguna alveg grafalvarleg á svip í þögn.

Ég var farin að halda að innkaupin væru henni ekki að skapi og spurði: Finnst þér þetta ekki flott?
Hún: Jú. Lífið er dásamlegt.

1 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Dá-sam-legt, snökt. Þetta er svo sætt.