Jæja, þetta er orðið flóknara en svo að hægt sé að gera því skil í fésbókarstatusum. Og til þess að ég þurfi ekki að segja söguna mikið oftar þá ætla ég bara að setja hana hér.
Það bar við á fimmtudaginn síðasta að ég hlunkaðist í yfirlið í vitna viðurvist fyrir utan Háskóla Íslands. Þetta hefur reyndar gerst áður, en ég er með lágan blóðþrýsting og veit alveg af því. Svo ég var svo sem ekkert að gera mér rellu út af því. En þarna á fimmtudaginn sá þetta alveg fólk og þetta varð full-hallærislegt. Svo var ég hálf drusluleg það sem eftir var dax og lufsaðist á læknavaktina í Kópavoginum seinnipartinn. Þar varð fyrir mér læknir sem tók blóðþrýsting, sem var einhversstaðar á lífsmörkum, og mældi líka púls. Og spurði svo hvort ég væri örugglega ekki á róandi. Hann sagðist svosem ekki hafa neinar akút áhyggjur, en skrifaði fyrir mig einhverja beiðni og sagði mér að fara á slysó daginn eftir, með hana. Sem ég gerði, mætti í bítið á föstudagsmorguninn uppá Borgó.
(Þetta HEITIR Borgarspítalinn. Mér er alveg sama hvað hver segir.)
Allavega. Þar er tekið hjartalínurit og hellingur af blóði og settur hjartamónitor. Eftir ekkert mjög langa mæðu kemur hjartalæknir og segist ætla að senda mig upp á "Hjartagátt" (Siríuslí. Deildin heitir þetta. Læknahúmor?) á Landspítalanum (við Hringbraut) til nánari athugana. Þar er tekið meira línurit, ég er tengd við mónitor, látin halda áfram að hafa nál í handleggnum og einhverju sulli dælt í hana seinnipartinn. Með reglulegu millibili komu síðan hjúkkur og aðstoðarlæknar og spurðu meira og minna sömu spurninganna, tóku blóðþrýsting (sem var náttúrulega bara... alltaf eins) og rannsóknarskip skemmti sér við að láta mér bregða, slá mig í andlitið með blaðinu sínu, og gá hvað það gerði nú fyrir hjartsláttinn. Þetta varð nú samt alveg arfaleiðinlegur dagur og þegar ekki sá fyrir endann á þessu klukkan 14 (og það var að byrja leikur) þá sendi ég hann heim.
Uppúr fimm hitti ég loksins sérfræðing sem sagði mér hvað þau hefðu verið að pæla allan daginn. Þannig var að við fyrra línuritið vaknaði grunur um "of langt bil" einhversstaðar. Það sást síðan ekkert aftur, en til að fylgja þessu eftir þar ég að hafa holter-tæki, græju sem hangir á manni og fylgist með hjartslættinum, í einn sólarhring einhverntíma í haust og hitta svo lækninn í framhaldinu. (Í haust, vegna þess að ég má ekkert vera að þessu fyrr en eftir 15. ágúst.)
Að öðru leyti er einstaklega íþróttamannslegt að vera með svona lágan blóðþrýsting og púls. Þetta ku vera eins og fólk í Gríðarlega Góðu Formi er með. (Fólk í gríðarlega góðu formi er hins vegar ekkert sérstaklega hrynjandi í yfirlið, út um allar trissur.)
En í öðru aðspurðu sagði hann mér að halda bara áfram að éta Herbalife og hreyfa mig, það hefði bara góð áhrif, en ég þyrfti að passa að drekka svakalega mikið vatn, til að halda þrýstingnum uppi.
Svo þetta er nú svona. Skemmtilegt að þetta getur verið skýringin á ýmsum höfuðringlum, jafnvægistruflunum og stundum staðbundnu máttleysi sem hefur tekið sig upp annað slagið hjá mér í gegnum ævina, og fundist upp ýmsar skýringar á, sem síðan hafa meira og minna fallið um sjálfar sig. Kannski er það alltsaman vegna þess að ég hef hvorki blóðþrýsing né púls.
Ég held þeir ætli mest að athuga hvort ég sé vampíra.
4.7.10
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég hef ekki beinlínis þjáðst af lágum blóðþrýstingi alla æfi, en hann hefur hinsvegar aldrei mælst yfir vampýrumörkum. Ég má ekki standa hratt upp því þá yfirlíð ég. Þetta er hvimleiður andskoti.
Baráttukveðjur til þín.
Skrifa ummæli