14.10.10

Erfitt

Mikil lifandis skelfingar ósköp er erfitt að yrkja. Óbermið hann Þorvaldur Þorst setti okkur þetta fyrir sem heimaverkefni á leikritunarnámskeiði. Ég sat við textagerð við jólalag í allan gær. Sjaldan hafa jafnmörg ljót orð fallið yfir jafnmörgum fallegum.

Annars er ég í átaki. Í október er allt sem ég geri ÆÐISLEGT. Ekki verður krumpast á sálinni yfir nokkrum einasta hlut né minni persónu vantreyst til nokkurs. Öngvu kviðið né hrökklast undan í einu eða neinu.

Setti upp leiksýninguna Ljóð fyrir níu kjóla í gær á meðan annað fólk æfði leikritið mitt, og það var ÆÐI! Barnabókin verður í pössun hjá áhugasömum myndskreytara fram yfir helgi. Og þó það sé hunderfitt að yrkja er þessi jólatexti nú samt þegar farinn að standa framar ýmsu... já, bara mörgu... sem komið hefur á tónlistarmarkað jólanna undanfarna áratugi.

Kannski vill einhver syngja hann... Kannski vil ég bara syngja hann sjálf!

Best að reyna samt að klára að yrkja hann fyrst. Ef allir á námskeiðinu eru jafngóðir með sig í október, þá gefum við bara út plötu!

Engin ummæli: