5.10.10

Jamm

Ég er ekki að nenna að blogga um pólitík. Pólitíkin mín er orðin svo yfirgripsmikil að ég er að leggja drög að bók sem verður talsvert þykkri en doktorsritgerðin mín og tekur til mannkyns alls frá upphafi þeirrar skepnu og til vorra daga og alræða fanta og sækópata á öllum tímum.

Nú búum við við grímulaust auðræði og allt á eftir að verða miklu miklu verra áður en það byrjar að verða betra. Þeir sem vilja skrimta ættu að athuga hvort þeir eiga ekki einhversstaðar landskika þar sem er hægt að rækta kartöflur, hafa nokkrar hænur og jafnvel eina kú.

Ég er annars með hausverk. Búin að vera lengi. Veit ekki hvað það á að þýða. Kannski er stressið loxins að ná í skottið á mér aftur. Hef annars hvorki fengið vöðvabólgu eða stresshausverk síðan ég bjó í Frakklandi, lærði að labba hægt, gera lítið og standa í biðröðinni á pósthúsinu.

Jamm, líklega kominn tími til að flytja úr landi aftur.

Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, sem ævinlega hefur verið meðfærilegur og hvers manns hugljúfi, hefur tekið upp nýja ósiði. Nú reynir hann að fá sínu framgengt með hávaða. Hreinlega orgar hástöfum þar til hann fær það sem hann vill. Og auðvitað verður honum alveg kápan úr því klæðinu, sérstaklega fyrir 8 á morgnana. Seinnipartinn er svo reynt að halda í hemilinn á því, og gengur misvel.

Jamm, líklega kominn tími til að flytja úr landi þar sem börn læra víst ekki aga á Íslandi.

Enda ekki von á góðu þegar fyrirmyndin hangir á internetinu og ekki byrjuð á vinnunni sinni þegar klukkan er að verða hálfellefu.

Jamm og já.

Engin ummæli: