Brjálæðislega er kalt! En eins og einn leikskólakennari barnanna sagði í morgun: „Já, það hefur alltaf andað köldu á konur í þessu landi.“ (Hún var nú reyndar að djóka... en samt.)
Reyndar var alveg magnað að sjá mótframbjóðendur Vigdísar í heimildarmyndinni um hana í sjónvarpinu í gær. Alveg kostulega forpokaðir kallar. Og það sem var ekki notað á hana í framboðinu! Hún mátti svo sem alveg vera kona. (Allavega þorði enginn að segja annað.) En það var verra að hún skildi vera einhleyp (hvað þá fráskilin!) einstæð móðir, hafa fengið krabbamein, hafa bara eitt brjóst... flest var tínt til. Og hún stóð þetta bara af sér, reif kjaft og var síðan þessi fíni forseti.
Hún er ekkert fullkomin. Ég er ekkert sammála henni þegar kemur að þjóðrembunni... að það eina sem við eigum eftir núna sé "íslenska stoltið" og hvað-ha. Ef sjálfsvirðing manns á að hanga á því í hvaða útnáraboru maður fæddist er það nú frekar random. Og ég er alveg farin að fá grænar þegar menn fara að fabjúlera um að við Íslendingar séu nú svona eða hinsegin. Svo ekki sé nú talað um að Íslendingar eigi einir að hafa aðgang að sínum náttúruauðlindum á sama tíma og allir fara að grenja þegar olíuverð hækkar, olían komandi beint úr náttúruauðlindum annarra þjóða, sem við viljum þá fá ókeypis aðgang að eins og okkur sýnist, eða hvað?
Ekkert af þessu á að vera í einkaeigu, Íslendinga eða útlendinga. Öngvir gullrassar græði á neinu sem allir þurfa til að lifa. (Þessi setning mætti fara í stjórnarskrána.)
Fór út af sporinu. Ég var í Vigdísi. Það sem hún gerði var að þora að svara kallaveldinu fullum hálsi og kynna til sögunnar alveg nýja tegund af forseta. Ferlega menningartengd, talaði haug af tungumálum og gat haldið ræður á þeim öllum. Bara svona oftast alveg ferlega skynsamlega þenkjandi.
Annars væri vissulega maklegt að fara út í langt kvenréttindarant í tilefni dagsins. Ég veit ekki hvort það er nágrennið við kynjafræðiskrifstofurnar, en ég er alltaf að sjá fleiri og fleiri fleti á því máli. Sennilega spila orðræðupælingarnar inní þetta líka. Og svo erum við búin að flækja okkur alveg helling.
Ég held það séu allar þessari skoðanir. Við höfum tilhneigingu til að mynda okkur skoðun. Hún er Svona. Þessi stjórmálamaður er ALFULLKOMINN og hinn er GLATAÐUR. ÞESSI gerði ÞETTA og er þess vegna FÁBJÁNI, og þá núllast öll góð verk og skynsamlegar afurðir. Við EIGUM (eða EKKI) að ganga í ESB. ALLT er annað hvort SVART eða HVÍTT og jörðin er FLÖT.
Páll Skúlason sagði að stjórnmálin, eins og þau væru stunduð á Íslandi í dag, hömluðu allri þróun og framförum.
Ég held að við séum stödd á hnignunarskeiði heimsveldis. Mannleg hugsun, eins og hún er stundið í dag, stendur allri vitsmunalegri þróun fyrir þrifum. Alveg eins og þegar kirkjan stóð í veginum fyrir vísindauppgötvunum á hnignunarskeiði alveldis síns í lok miðalda.
Þetta er nú bara tíser.
Verður betur útlistað í Stóru bókinni um heimsveldin sem ég ætla að skrifa þegar ég verð búin með doktorsritgerðina.
Þetta rant endaði með því að fjalla afar lítið um konur.
Til hamingju með afmælið, Ármann.
25.10.10
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli