2.12.10

Börnin, buran og fleira

Börnin ryðja úr sér gullkornunum þessa dagana. Hér eru nokkur.

1. des voru opnuð dagatöl, í fyrsta sinn í minni Hraðbátsins. Hann var hreint ekki sáttur við að fá bara eitt nammi. Og rökin voru óhrekjanleg: „Ég verð að fá mörg nammi svo ég verði stór!“

Freigátan hefur greinilega verið í einhverjum nafnaumræðum á leikskólanum undanfarið vegna þess að hún hefur verið svolítið upptekin af því að vera ekki „kölluð“ neitt. Heitir bara Gyða og er kölluð Gyða. (Sem er reyndar einmitt ástæða þess að Sigga amma mín ákvað að láta skíra Gyðu mömmu mína þessu nafni.) Sú stutta vildi á tímabili láta kalla sig „Gyð“. Í gær var hún komin með aðra lausn á málinu og vildi fá að skipta alfarið um nafn. Heita Rósalind og vera kölluð Rósa. Mig minnir að ég hafi einu sinni nefnt alveg ferlega fallegan kálf því nafni...

Annars er ég farin að finna fyrir því að stundum þarf maður að nota tvö nöfn á börnin. Það er bara Unglingurinn í skóginum sem heitir tveimur nöfnum. Róbert Steindór. Og gott getur verið að grípa til seinna nafnsins þegar þannig stendur á. Í tilfelli þeirra yngri er engu slíku að dreifa. Enda er mér farið að verða það á að nota seinna nafn Unglingsins þegar Þarf að leggja áherslu á nafn Hraðbátsins. Friðrik Steindór, viltu fara niður af borðinu! Og svoleiðis. Hef reyndar ekki notað þetta á Freigátuna enn.

Á heimilinu hefur verið glerskápur sem missti tilgang sinn þegar settar voru upp aukahillur í eldhúsinu í sumar. Og þurfti að hverfa þar sem það vantaði eiginlega meira pláss fyrir bókahillur. Í gær fór hann í ættleiðingu til Kötu frænku hans Róberts. Bregður svo við að þegar verið er að fara með skápinn fer Freigátan að hágráta. Eftir langa mæðu tekst mér að fá upp úr henni hvers vegna sé svona sorglegt að sjá af skápferlíkinu. Jú, „Þá eiga jólaglösin hvergi heima!“

Það endaði með því að ég þurfi að sýna henni hvar „jólaglösin“ eru búin að búa í hálft ár. Og jólasveinslaga kannan var líka alveg í góðu yfirlæti í „jólaskápnum“ þar sem jólaseríur, aðventuljós og jólaskraut sem gleymist að taka niður á heima.

Unglingurinn í skóginum var settur í heimaverkefni í gærkvöldi, þeir Rannsóknarskip lögðust yfir fermingarmyndirnar og völdu hverjar þeirra skyldi fara á jólakort og saa videre. Daginn þar áður tóku þeir feðgar rækileg þrif á barnaherbergi og stofu, þannig að nú lítur þetta alltsaman líklegar út með jólin. Aldrei að vita nema þau komi bara.

Þau litlu hafa verið gífurlega upptekin af því að vera "á undan" undanfarið. Og þar sem þau eru tvö, og stundum þrjú þegar daman á efri hæðinni er með, þá fer einhver að grenja í næstum hvert einasta sinn sem þarf að færa sig á milli herbergja. Það er nú pirrandi. Ég fer alveg að sjá fegurðina í því að eiga bara eitt barn... en það er nú alltaf fínt að vera vitur eftirá.

Huggun harmi gegn að þegar ég verð fimmtug, þá verða vonandi allir nokkurn veginn lausir af gelgjunni. Enda er langt síðan við Rannsóknarskip, sem aldrei nennum að halda uppá nokkurn skapaðan hlut, ákváðum að þegar hann verður 51 og ég 49, mitt á milli fimmtugsafmælanna okkar, sem er nokkurn veginn um verslunarmannahelgi 2023, ætlum við að halda alveg gríðarlega uppá 100 ára afmælið okkar. Og það verður látið bæta upp brúðkaupsleysið, hyskni við uppáhald merkisafmæla, úrskrifta og annarra stórviðburða, ævina út.

Og í leiðinni verður haldið uppá að hinn grýtti, mjói og vandfetaði vegur uppeldisins verður að mestu lagður að baki.

Flott, ha?

1 ummæli:

Árný sagði...

Ji hvað þetta er fínt skipulag hjá ykkur. Hér er líka skortur á millinöfnum, hjá öllum fjölskyldumeðlimum - enda hafa foreldrarnir bæði verið kölluð Hjörvarsdóttir (son)! þegar við gegnum ekki ;)