4.2.11

F****** föstudagur...

Ætli ég sé ein um að vera alveg meinilla við föstudaga?

Á hverjum föstudegi rignir inn á fésbókina allskonar "thank god it's friday" athugasemdum. Og ég urra bara. Mér finnst föstudagar erfiðustu dagar vikunnar. Ég er alltaf orðin drulluþreytt eftir vikuna, krakkarnir líka, og ekki nóg með það, svo á maður oft að vera í "stuði" á föstudagskvöldi. (Ef ekki það þá er hálfur bærinn í stuði, og maður heyrir óminn af því í fjarlægð þar sem maður liggur í sínu geðvonskukasti undir sæng.) Á föstudagskvöldum er ekkert haft í sjónvarpinu sem horfandi er á. Á neinni stöð. Nema kannski fyrir unglinga. Ef maður er orðinn eldri en unglingur á maður að vera útí bæ. "Í stuði."

Ekki nóg með það, svo tekur við helgin þar sem allt þarf að gerast og þar fyrir utan þarf líka að hafa óstjórnlega GAMAN! Auðvitað þarf að viðra krakkaormana og svona, já og vera með samviskubit yfir öllu sem maður er ekki að gera, viðburðunum sem maður er ekki að sækja, vinunum sem maður er ekki að heimsækja. Svo ekki sé minnst á þvottinn sem maður nær ekki að þvo, herbergjunum sem maður nær ekki að þrífa, öllu draslinu sem maður nær ekki að skipuleggja eða holla matnum sem maður nennir ekki að elda heldur pantar pizzur í staðinn. Já, og kílómetrunum sem maður nennir ekki að hlaupa.

Ég verð nú bara að viðurkenna að ég verð alveg drullufegin á hverjum einasta mánudagsmorgni þegar hin rútíneraða rútína tekur aftur við með mætingartíma, fundum, skilafrestum, leikskóla og pasta. Reglulegum háttatíma og fótaferð. Fésbók og þremur kaffibollum á dag og prjónaskap yfir reglulegri sjónvarpsdagskrá á kvöldin.

En nú er víst föstudagur.
Ég þyrfti að leggja mig í svona 3 tíma.

En í kvöld á víst að "vera í stuði."

*Andvarp.*

3 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Uppáhaldið mitt við föstudaga er að þá veit ég að ég þarf ekki að draga alla fram úr rúminu morguninn eftir. Mér er alveg sama hvaða fjör er einhvers staðar í tuga kílómetra fjarlægð, bestu helgarnar eru þegar maður gerir sem minnst :p

Til hamingju annars með drenginn í fyrradag, ég treysti því að hann hafi kunnað að meta Selur kemur í heimsókn.

Sigga Lára sagði...

Verst að "stuðið" heldur sig ekki síst á hæðinni fyrir ofan á nóttunni um helgar.
Ég held að það hafi öðru fremur orsakað föstudags-fóbíuna.

Langar í leiguhúsnæði einhversstaðar þar sem í húsinu býr enginn undir sextugu.

Berglind Rós sagði...

Oj ég finn til með þér, það er ömurlegt að búa við svoleiðis.