Klukkan 07.24 í morgun voru þrjú ár frá fæðingu þessa unga manns, Hraðbátsins. Fæðingin útheimti tæpa næturvöku og daginn eftir gat ég ekkert sofið í Hreiðrinu af því að ég þurfti svo mikið að horfa á hann. (En hann lét það ekkert raska ró sinni og vaknaði ekkert mikið fyrstu dagana.)
Hann er Vatnsberi eins og Freigátan og fæddur á kínversku ári svínsins með eld að frumefni. (Þess má geta að systir hans er líka Vatnsberi, fædd á ári hanans með tré í frumefni og þeim kemur afar vel saman... sem hægt væri að draga einhverjar ályktanir af, ef maður nennti.)
Það sem mér finnst merkilegast er að mér finnst Freigátan nýkomin af fæðingardeildinni og mér finnst ég nú eiginlega bara nýorðin ólétt af Hraðbátnum. Hætti bara ekki að furða mig á hraða tímans þessa dagana...
Hraðbátur viðhefur klósettferðir eingöngu eftir geðþótta og tekur ekkert undir samningaviðræður um bleyjuleysi. En tæpt ár er síðan hann lærði alla stafina. Vafalaust einhverskonar misþroski þarna á ferðinni.
Hraðbátur er búinn að halda upp á afmælið sitt, en á samt eftir að fá tvo pakka sem ég geymdi fram á réttan dag. Ég reikna með því að nýjasti Hálfvitabolurinn og bókverkið „Selur kemur í heimsókn“ komi til með að slá í gegn, eftir leikskóla.
3.2.11
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ohhh - finnst einmitt eins og það sé bara vika síðan ég fékk sms-ið frá ykkur og huxaði með öfund til ykkar :) Hamingjuóskir frá okkur öllum hér! Knús kram og allt þar á milli!
Skrifa ummæli