23.2.11

Rohypnol!

Það er ekki eins og ég hafi verið lengi í fríi. Svona rúma viku. En samt er eins og vatnaskil hafi orðið.

Nú er "kvennavefurinn" bleikt.is búinn að vera mikið í umræðunni. Ég verð að játa að ég fylltist ekki sama hryllingi og margir þegar hann var kynntur til sögunnar. Reyndar var hann kynntur full-rækilega. Ég minnist þess varla að hafa fengið jafnmiklar upplýsingar um fyrirbæri sem ég hef engan áhuga á síðan 2007 þegar allt logaði í fréttum af því með hvaða hendi útrásarvíkingar skeindu sig... í hvaða átt sem maður horfði.

Núna hafa orðið eigendaskipti á Eyjunni. Heldur betur. dálkurinn "Fréttir af Facebook" er til. Og Eiríkur Jónsson er líka kominn þangað og uppfyrir strik. Allt í einu eru "fréttir" mest áberandi þar sem ég hef litla lyst á að lesa.

Svo er eitthvað Ví Æ Pí partí sem ég hef engar forsendur til að vita neitt um... en veit þó alveg nóg.

Og svo, jú, Æseif. Dropi í skuldahaf Íslendinga sem öllum sem kunna að reikna er skítsama hvort við borgum eða ekki. Nú á að þrefa um það.

Fjórða valdið er í eigu Hrunverja. Og tekur þátt í öllu sem afvegaleiðir frá nokkru sem skiptir raunverulegu máli af öllum kröftum. Forsíður breskra dagblaða, sem þó eru fræg fyrir ví æ pískt og skrítið fréttamat, voru fullar af arabísku byltingunni. Framvindu, pólitískum afleiðingum, Túnis, Egyptalandi, Líbýu... Mögulegum afleiðingum fyrir Vesturlönd... Að sjálfsögðu. Svo varð svakalegur jarðskjálfti á Nýja Sjálandi. En til að fylgjast með björgunarstarfi þar þarf maður að lesa erlenda fréttamiðla.

Svo við lítum okkur nær, hvað varð af máli málanna? Hvar eru útrásardólgarnir með peningana okkar? Eru þeir kannski að leka þeim aftur inn í landið, til dæmis í gegnum eignarhald sitt á fjölmiðlum? Erum við að vinna aftur fyrir þýfinu, sem við vorum áður búin að borga í skatta?

Er mögulega verið að gefa okkur Rohypnol í formi 2007-miðlamennsku til að hægt sé að halda áfram að taka okkur í ósmurt?

Engin ummæli: