22.2.11

Staðan...

Það er verulega mikið að gerast. Svona fyrir utan hamfarir í Nýja Sjálandi, Arabísku byltinguna og... já, Icesave... gaman að fá að þrasa um það nokkrum sinnum í viðbót...

Þá fór íbúðin okkar á internetið í gær. Fyrsta fólkið hringdi í okkur þegar við vorum á flugvellinum í Glasgow og kom og skoðaði 10 mínútum eftir að við ultum inn heima hjá okkur. Tveir í viðbót komu í hádeginu og einn kemur á morgun. (Og ég hef komist að því að ég er fasteignasali dauðans, á tveimur tungumálum. Og ég veit ekki hvort er komið tilboð þar sem ég setti símann minn í þvottavélina áður en ég fór í vinnuna. Smart.)

Á meðan ég var utan var líka ákveðið að blása til aukasýningar á Helgi dauðans. Hún verður á laugardag. Kl. 20. Miðapantanir á hugleikur.is.

Annars var skemmtilegt í Edinburgh. Við náðum að fara í Edinburgh Literary Pub Tour, á föstudagskvöldið, sem var æði (og á eftir datt þetta ekkert í sig sjálft). Á laugardag í hádeginu fórum við í hádegisleikhús í Traverse Theatre (tilboðið hét A Play. A Pint and a Pie. Afar skemmtilegt tiltæki sem ætti að taka upp á Rósenberg) og sáum fínasta kommúnistastuttverk frá Venesúela sem hét í enskri þýðingu The Company will Overlook a Moment of Madness. Ferlega gott stykki um hvernig óþægilegum starfsmönnum er breytt í verkalýðshetjur. Og vel gert.
Um kvöldið fórum við svo á frumsýningu í Royal Lyceum Theatre á kanadískt súffragettuverk sem hét The Age of Arousal. Sem var ekki nærri því eins klámfengið og titillinn gefur til kynna. En alveg ljómandi fyndið og skemmtilegt á köflum. Reyndar með ótal skiptinum... en það leystist ágætlega.

Svo leikhúsborgin Edínar stóð sig ágætlega.

Svo löbbuðum við út um allt, leituðum uppi allt of marga allt of góða veitingastaði (enda fékk megrunin á baukinn) náðum að borða franskt, indverskt og ítalskt... ekkert skoskt nema morgunmatinn. Svo vorum við líka dugleg að leita uppi pöbba með tónlist.

Svo versluðum við eins og fábjánar í góðæri. Eins gott að íbúðin seljist áður en vísareikningurinn kemur...

En afslöppun varð ekki úr þessu. Við erum Úrvinda. Heppilegt að Rannsóknarskip skuli líka vera í vetrarfríi í dag, til að jafna sig. Ég ætla bara í jóga.

Og þá er að taka aftur til óspilltra málanna. Ótal deddlæn eru yfirvofandi og ég veit ekkert hvað ég er að gera hérna. Sennilega þarf að skrifa hluti niður núna...

2 ummæli:

Gummi Erlings sagði...

Leikrit, lager og lagkaka?

Sigga Lára sagði...

Það skásta sem mér datt í hug var:
Leikrit, baka og bjór.

Bakka ekki með að þetta væri frábær hugmynd fyrir laugardaga á Rosenberg, ef einhver nennti. ;)

(Og það var líka hægt að fá óáfengan drykk í staðinn fyrir bjór, sko.)