25.2.11

Skortur á einbeitingarleysi

Einbeitingin er ekkert heima þessa dagana. Enda er svo mikið að gerast að maður veit ekki hvernig neitt snýr. Auk þess sem allt fyrirliggjandi er einhvernveginn alveg ferlega margt smátt... eða allavega fljótgert. Eða tiltölulega. Eins og að panta hótelgistingu í Osaka í samfloti við fólk í Danmörku, Bandaríkjunum og Íran, sem tók nú dágóðan part úr gærdeginum, en er frágengið.

Annars gáði ég á stjörnuspána mína í dag á stjörnuspeki.is, sem ég man aldrei eftir nema þegar einbeitingin er farin úr landi. Hún var ferlega sniðug.

Hugsun þín er jákvæð og móttækileg og andrúmsloftið einkennist af bjartsýni. Þér bjóðast ýmis tækifæri og hlutirnir hreyfast vel áfram. Þetta er góður dagur til að ferðast eða byrja á máli sem þú vilt að verði stórt. Nú er gott að læra og pæla, m.a. í útlöndum og framandi málum.

Japan held ég sé nú reyndar afgreitt, þannig, þannig að útlönd eru svo sem búin í bili. En ýmislegt var ég með sem ég vildi að yrði stórt... hvar setti ég nú Hugmyndabókina?

Annars er ég búin að gera langan lista af einhverju sem byrjar allur á: Athuga, og skoða, og fletta upp, og senda tölvupóst... Jú, svo er eitt föndra. Ég hugsa að ég komi því í verk.

Íbúðin er svo gott sem seld. Búið að samþykkja tilboð sem hljóðar uppá staðgreiðslu sem nemur uppgreiðslu láns auk umboðslauna til fasteignasala og einhverjum hundraþúsundkalli betur. Góða fólkið ætlar síðan að leigja okkur íbúðina fram á vorið, flytjum í síðasta lagi 1. júní. Ég ætla að byrja á að bíða átekta, apríl er mánuðurinn þegar í ljós kemur hvað losnar á Stúdentagörðunum fyrir næsta vetur. Og ef við fáum ekkert þar fyrr en í haust NEYÐUMST við líklega til að vera á Egilsstöðum í ALLT sumar. Æjæjæjæjæj.... (Eða hittó!)

Góða fólkið ætlar ennfremur að versla af okkur allar græjur, ísskáp, uppþvottavél, þvottavél og þurrkara. Sem er ljómandi þar sem það er leiðinlegast í heimi að flytja svoleiðis drasl og það fylgir oftast með leiguíbúðum og Stúdentagörðum.

Það bætti ekkert einbeitinguna að reyna að lesa grein um stjórnarhætti og sögu Líbíu í morgun. (Og mér finnst það eigi að vera ufsulon í því... en ruv.is stafsetur það svona.) Allavega. Flókið land. Allt í ættbálkum. Og ótal rasshausar slást ævinlega um völdin. En að leyfa fólkinu að ráða hvaða rasshaus það kýs sýnist mér óneitanlega vera skref í rétta átt. Ja, þá eru menn komnir í sama skítin og við hér fyrir vestan, betur sjá fleiri augu en færri og þá getum við spekúlerað í afrasshausun valdaklíknanna, öll saman.

Jæja. Ætti maður að föndra?

Engin ummæli: