9.3.11

Hugvísindi og Kópavogur

Nú er hugurinn heima... eða ekki heima... hvar sem það er nú. Það er nú illa skemmtilegt að þýða verkefnislýsingar og allt svoleiðis yfir á Engilsaxnesku. Og reyna að bora rannsókn á Hugvísindasviði inní styrkumsókn sem er sérhönnuð fyrir rannsóknir í raungreinum. Spes. Reyndar ágætt að við erum alveg nokkur að krepera yfir þessu saman.

Annars eru búsetumálin í undarlegu limbói. Við erum búin að samþykkja tilboð, en erum að bíða eftir kvaðningu á kaupsamningsfund. Eftir hann ættum við að vera laus allra mála. Og í fyrrakvöld datt í hausinn á okkur íbúð til leigu! Góður frændi á óseljanlega efri hæð í Kópavogi. Herbergi handa öllum, skápar úti um allt, og yfir þrjátíu fermetrum meira en við eigum að venjast. Allt sófasettið kemst í stofuna og hjónin geta fengið að búa í hjónaherberginu. Flutningar í börbin áætlaðir þann 1. maí. Svo nú fer ég að óþreyjast eftir sölusamningi... og í framhaldinu nokkurn veginn skuldleysi!

Við förum ekki langt uppí Koppavoginn. Bara eiginlega í nágrenni við Huggu syss, austanmegin samt. Leikskólar Kópavogshlíðar Fossvogsdals eru til gagngerrar skoðunar.

Og þar sem fyrirhugaðir flutningar breyta lífstílnum ótneitanlega talsvert, fór ég í bæinn í gær. Þar sem úthverfadrottningar labba sér ekkert niður á Rósenberg á þriðjudagskvöldum. Dætrasynir spiluðu skemmtilega að vanda en toppuðu sig alvarlega í uppistandi á milli laga. Kvöldið varð því erfiðara fyrir þindina en lifrina. (Svo maður taki lífvísindin á þetta.)

Já, ég er að drepa tímann. Fjölmyrða hann, alveg hreint. Enda er ég ferlega metnaðarlaus gagnvart þessari umsókn. Téður sjóður veitti enga styrki til rannsókna á hugvísindasviði í fyrra og einhverja tvo til félagsvísinda, og þeir minnir mig að hafi farið í peningafræðin. Og mér sýnist á nýja umsóknarforminu að menn séu ekkert á þeim buxunum að fara að skipta eitthvað um takt þar. Eingöngu rannsóknir á því sem gæti skapað peninga skulu styrkjast.

Hlakka til þegar peningar verða úreltir og fjármálakerfið dautt.
Þá fyrst verður hægt að fara að gera eitthvað af viti.

Engin ummæli: