10.3.11

Slór

Búin að gera bókstaflega allt annað í morgun en það sem ég á að vera að gera, og þarf að vera að gera, og kemst ekki hjá því að gera... En Nenni Siggi er alveg ferlegur fastagestur þegar kemur að því að vinna styrkumsóknir eða gera annað alvarlega merkilegt.

Svo er bara kominn brjálaður snjór og vetur og frost og Öskudagur ku eiga 18 bræður, þannig að vorið kemur 28. mars. Að staðartíma. (Eitt af því sem ég reiknaði út í morgun, sko.)

Ég er líka búin að lesa fésbókina, af stökustu alúð. Eitt að því sem ég er búin að lesa nokkrum sinnum eru að rannsóknir ku sýna að það sé hollt fyrir karlmenn að horfa á brjóst. Er ekki svolítið merkilegt að vefur sem segist vera fyrir konur geri mest útá að halda á lofti réttlætingum fyrir því að karlmenn hagi sér eins og... tja... svín, og að konur eigi að mála sig og vera til friðs? (Og vera ekki að gera sér rellu yfir því þó menn tali við brjóstin á þeim frekar en andlitin.) Það hefur mér allavega sýnst, svona á fyrirsögnum. Ég reyni að sneiða hjá því að gefa nýju fjölmiðlamafíunni "hitt".

Svo virðist vera að koma einhver helgi dauðans. Morgundagurinn þaulskipulagður fram undir miðnætti. Og sölufundur íbúðar eftir hálfan mánuð! Ljómandi það. Mikið vona ég nú samt að snjórinn og frostið láti undan síga áður en brestur á með flutningum. Það er alveg dauðinn sjálfur að flytja í snjó.

Það vantar tvennt í aðstöðu fyrir doktorsnema. Kaffistofu til að taka kjaftatarnir, og stað til að leggja sig.

Farin undir borð!

Engin ummæli: