10.8.09

Það mætti halda að maður væri með ástandið á heilanum

miðað við undanfarnar færslur. Þá er kominn tími til að taka upp léttara hjal og segja fréttir af fjölskyldunni. Hún segir farir sínar misjafnlega sléttar. Fljótlega eftir heimkomu tók Móðurskipið pest sem vel má vera að hafi verið svínaflensan sem kennd er við Mexíkó. Sú var fljót í förum en skildi eftir sig andnauð nokkra sem við hefur verið brugðist af læknamafíunni með ávísun á tvenns konar meðöl, til gleypinga sem og innöndunar. Aðrir heimilismenn áttu svo í þessu um helgina, en voru sneggri að. Rannsóknarskip lá flatur í tvo daga og spilaði svo golfmót. Litlu ormarnir fengur smá hor og oggulítinn hita og voru ekkert sérlega ánægð með að vera höfð innandyra, föstudag til sunnudags.

Móðurskip hefur fengið ströng fyrirmæli um að fresta öllum hlaupum þar til astmi og bronkítis hefur látið undan síga og ku eiga að vera á sterum fram yfir maraþon. Vona bara að ekki verði gerð lyfjapróf. Hefi huxað mér rækilega út að hlaupa á morgun. Við þessari pásu í líkamsræktarátakinu hef ég brugðist með því að drekka Herbalife í tvo þriðju mála. Mér sýnist ég enn léttast, þrátt fyrir hreyfingafrí.

Freigátan er komin aftur í leikskólann og Hraðbáturinn er svakalega kátur í aðlögun á Sólgarði. Í dag var fjórði dagur aðlögunar og hann var ekkert endilega á því að koma með heim þegar ég sótti hann. Var bara búinn að borða vel, með fisk í hárinu og nennti ekkert að tala við mig þegar ég kom. Meðan hann var að aðlagast fór ég loksins og sótti formlega um doktorsnámið ógurlega. Þarf að redda smá meiri pappírum og undirskriftum á morgun en svo fer þetta fyrir deildarstjórn, einhverntíma seinna í mánuðinum. Stuð. Ég laumaðist líka til að skoða aðstöðu doktorsnema í Gimli. Hlakka óskaplega til að fá skrifborð og hillur þar. ("Skrifstofan" í horninu á dótaherberginu er einhvern veginn... orðin falin undir draslhaug fyrir löngu.)



Smábátinn endurheimtum við á fimmtudag og Rannsóknarskip fer að vinna á mánudag. Smábátur hefur nám í skóla Haganna viku síðar. En áður en nokkuð af þessu gerist þarfnast heimilið talsverðrar yfirhalningar, tiltektar, þrifs og endurskipulagningar. Planið er að henda ótrúlega miklu.

Svo var verið að hlaða inn myndum úr seinnihluta sumarleyfis. Þær eru nú svo ógurlega margar flottar að ég held ég verði að setja góðan slatta inná fésið. Og slatta hér.

Þessar flottu peysur prjónaði amman fyrir austan í sumarfríinu.

9.8.09

Lán eða ólán?

Svo við þurfum að taka himinhá lán til að eiga "sjóð" til að aðrar þjóðir haldi að óhætt sé að lána okkur enn meira, þrátt fyrir að við eigum ekki fyrir skuldunum sem við eigum nú þegar?

Þangað til hvað? Svín fljúga og allir í heiminum gleyma aftur að á Íslandi er peningum ævinlega haldið í sama fjölskyldu- og kunningjahópnum sem er með peningafíkn og klárar þá þessvegna alltaf um leið í vilteysu?

Er það ekki bjartsýni?

Væri ekki nær að reyna að sýna smá hyggindi frekar en að ætla að redda málunum með "klókindum" meiri lántökum og ævintýramennsku?

Éld við séum endanlega á leiðinni í skítinn með Alþjóðagjaldeyrissjóðsruglinu.

4.8.09

2007 / 2009

Allt hefur hækkað. Nema laun og námslán. Þau standa í stað eða lækka. Allir eru að verða atvinnulausir, 3 fyrirtæki fara á hausinn á dag ríki og bæir djöflast í að skera niður, á vitlausum stöðum, auðvitað, og halda uppi ónýtum fyrirtækjabáknum sem einhverra hluta vegna mega ekki fara á hausinn. Allt stefnir í eilífan forarpytt erlendra skulda sem við komumst aldrei aldrei aldrei uppúr. Og krónan sekkur til botns og hver einasti hlutur innfluttur kostar handlegg og fótlegg. Persónulega hjá mér? Lánin hafa hækkað, launin hafa lækkað og íbúðin okkar stendur líklega engan veginn undir veðinu.

En fólk hefur skoðanir. Þær eru margar og misjafnar, en menn hamast við að lesa og skrifa. Tjá sig. Benda á lausnir, skamma þá sem eiga sök. Vilja ganga í EB eða ekki, samþykkja Icesave, eða ekki. Menn hrekja gömlu valdabröltarana aftur inn í skápana með sín lögbönn á fjölmiðla og gera stjórnarbyltingar með búsáhöldum. Fara í framboð, skipuleggja aðgerðir, skrifa reiðar greinar. Mæta á mótmæli.

Þegar almenningur er sammála stjórnar hann þjóðfélaginu.

Ég elska Ísland 2009.
Í græðgisgeðveikinni 2007 hefði ég getað hugsað mér að flytja til Noregs.

2.8.09

Lögin sem sýsli gleymdi:

Ábending frá föður vorum:

Ég er þeirrar skoðunar á lögreglustjóri hafi gleymt að líta til laga um ársreikninga, þegar hann samþykkti lögbannskröfu Kaupþingsmanna. Nafnbirting kann hins vegar að vera álitamál, en þar sem viðkomandi stofnun er í eigu almennings og áhætta hans mjög mikil hlýtur slík birting að vera eðlileg krafa.

Samkvæmt neðanskráðum lagatilvitnunum er skylt að greina frá því í reikningsskilum hversu háar fjárhæðir fyrirtæki lánar eigendum sínum. Ég sé því ekki að lagaákvæði um bankaleynd nái til slíkra hluta, þar sem í hlut eiga eigendur, en ekki viðskiptamenn bankanna.

Sigurjón Bjarnason

Lög um ársreikninga nr. 3/2006:

53. gr. Tilgreina skal fjárhæðir lána, svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar sem veittar hafa verið félagsaðilum eða stjórnendum félags eða móðurfélags þess vegna tengsla þessara aðila við félögin, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála.
http://www.althingi.is/lagas/hk.jpgÁkvæði 1. mgr. eiga einnig við gagnvart einstaklingum, nátengdum þeim sem þar eru taldir.

Lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002

58. gr. Þagnarskylda.
http://www.althingi.is/lagas/hk.jpgStjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
http://www.althingi.is/lagas/hk.jpgSá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.

1.8.09

Meira fokkíng fokk?

Ég hélt ég væri búin að missa hæfileikann, eins og Indra sagði á fésinu um daginn, til að blöskra eða hneykslast.

En ég hélt að svínaflensan væri að hlaupa með mig í gönur í upphafi fréttatímans á RÚV áðan.

Hvernig væri nú að vér sauðsvartur almúginn, sem ekkert kemur við hvað bankinn okkar gerir við peningana okkar, tækjum okkar hraksmánarlegu sparnaðarupphæðir, sem líklega eru það eina í "eignasafni" bankans sem eru raunverulegir peningar þó reyndar í krónum séu, og flyttum það eitthvert annað og skildum "viðskiptavinina" eftir sem skulda þessa 1500 milljarða eina eftir?

Ég hélt ég væri komin á botninn í blöskrinu en nú held ég að hið "Nýja" Kaupþing verði að lifa án viðskipta minna, nema einhver þróun verði á afstöðu hans til bankaleyndar vs. gagnsæis á allra næstu klukkutímum. Reyndar sé ég um allt internet að menn eru þegar farnir að loka reikningum sínum í Kaupþingi. Ég á bara talsverðan slatta af peningum og góðan þjónustufulltrúa þar svo ég vil kanna vel hvaða aðra möguleika ég hef, áður en ég gríp til aðgerða. Reyndar langar mig mest til að flytja bankaviðskipti mín úr landi, ef það væri nú hægt. Allavega langar mig í nýjan banka. Helst vildi ég að ríkið ætti hann.

Hvenig væri að ríkið leyfði nú þessum gömlu skítabönkum að rúlla bara og stofnaði nýjan?

Alveg skyldi ég samstundis færa öll mín viðskipti í banka Jóhönnu & Steingríms.

Já, og hér eru allar upplýsingarnar sem enginn má sjá.
So, sue me!

29.7.09

Hlaupamontið

Í dag eru 3 vikur og 4 dagar síðan ég hljóp 800 metra og var rétt látin af andarteppu.
Í gær fékk ég pirru af því að mér fannst megrunin ganga eitthvað hægt. Búin að missa 4 kíló.

Ég er 35 ára gömul og hef aldrei stundað íþrótt. Reykti staðfastlega í einhver 12 ár og geri enn við mishátíðleg tækifæri og þrátt fyrir míkróskópískan kílóamissi á undanförnum vikum er enn um fimmtungi líkamsþyngdar minnar ofaukið miðað við miðjuna á kjörþyngd. Ég hef fengist við ýmsa misdularfulla kvilla í gegnum árin, þunglyndi með kvíðaröskun, jafnvægisskynsflakk, ofdrykkju, grindargliðnun og greindar, barneignir og fleira misgaman.

Í dag hljóp ég 10 kílómetra.
Það er allt hægt.

Ferðamennska á Nýja Íslandi

Þá er sumarútlegðinni lokið í ár. Lokasprettinum eyddu við á Suðurlandinu og tókum það í þremur stökkum. Skoðuðum aðallega sundlaugar og erlenda ferðamenn.

Sundlaugar á leiðinni prófuðum við tvær. Fyrst fórum við í góðærislaugina á Höfn í Hornafirði. Eitt af því ágæta sem góðærisbruðlið skildi eftir sig eru nokkrar alveg frábærar sundlaugar vítt og breytt um landið. Hafnarlaug er ein þeirra. Rennibrautirnar ku vera afar skemmtilegar. (Verst að þegar Smábáturinn er ekki með í för er heimilisfaðirinn einn um að hafa smekk fyrir þeim. Freigátan þorir alls ekki, en unnið er í því að koma Hraðbátnum á bragðið.) Góðærispollurinn á Höfn er semsagt alveg ljómandi. Fyrir utan skítakuldann og rokið sem var í honum þegar við áttum leið um.

Svo endurnýjuðum við kynni okkar við sundlaugina á Hvolsvelli. Síðast fórum við í hana þegar Freigátan var pons. Hún gerði gríðarlega lukku. Hraðbáturinn náði niður í sullupollinum og var hinn drýgindalegasti. Svo voru æfðar dýfingar í stóru lauginni af talsverðum áhuga. Veðrið var miklu betra en í Hornafjarðarlaug og Hraðbátur var tekinn með í rennibrautina svo heimilisfaðirinn hefði afsökun til að fara tvisvar. Þarna er líka hægt að fá sér kaffi í heitapottinum. Heimilislegt. Sundlaug Hvolsvallar fær sem sagt enn meiri meðmæli, þó minna góðærisbragð sé af henni.

Og svo eru það túristarnir. Mikið svakalega finnst mér hressandi á sjá erlenda pokaferðamenn fá sér hressilega neðan íðí á meðan íslendingarnir láta eins og þeir séu allir í góðtemplarareglunni. Sjá útlendinga vera svolítið eins og Íslendingar eru stundum í útlöndum þar sem ódýrt er að drekka. Verð að viðurkenna að mér er örlítið hughægra um vínhegðun landans.

Svo nú erum við endursnúin. Alltaf ágætt að koma aftur heim, þó viðurkennast verði að fjölskyldurnar í norðrinu og austrinu togi nú alltaf svolítið. En nú hefst doktorsnám sem gerir það vænanlega að verkum að hér verðum við áfram næstu 5 árin eða svo.

Best að fara að gera vistunarsamning við Hraðbátsleikskólann og athuga hvenær sundskólinn hennar Sóleyjar byrjar... og hlaupa svo kannski svona 8 kílómetra af 10 km Reykjavíkurmaraþonshringnum.