15.11.10

Skreiðst

í vinnuna.

Er ennþá alveg eins og aumingi með hor og hósta og sleppu. Hefi enn einu sinni svarið þess dýran eið að vanmeta aldregi framar góða heilsu þegar hennar nýtur við. Og ætla þvílíkt út að hlaupa þegar þessu sleppir, hvernig sem viðrar!

Meðan ekki er hægt að gera annað en að lufsast um með hálfa meðvitund er síðan líklega best að reyna bara að gera eitthvað gagn með því. Nú þarf til dæmis að hjóla í doktorsritgerðina á milljón. Klára að vinna innganginn og ryðja helst útt uppkasti af einhverjum slatta af öðru fyrir jól. Og svo þarf að læra fyrir eitt próf... sem er reyndar mikið til skylt að efni þannig að það fellur ágætlega saman. Og svo smælkið... boða einn aðalfund, gera einn útvarpsþátt, æfa eitt leikrit, eða kannski tvö... Já, og svo er tími útdrátta að fyrirhuguðum fyrirlestrum næsta árs víst runninn upp!

Ég horfði annars á skemmtilegt rant Stephen Fry í gær. Við erum andlega skyld. Og ég er einmitt oft mjög fegin að ég skyldi hafa rambað á þann stórasannleik að vinnan manns sé, og þurfi að vera, skemmtilegri en skemmtun.

STEPHEN FRY: WHAT I WISH I'D KNOWN WHEN I WAS 18 from Peter Samuelson on Vimeo.

12.11.10

Oj

Það er svooooo kalt.
Og á svoleiðis tímum er um að gera að vera hundveikur og þurfa samt að fara í vinnuna. Ætla á tvo fundi núna fyrir hádegi en síðan er ég farin heim að breiða uppfyrir haus og hreyfi mig ekki fyrr en allt er batnað og veðrið líka.

Síjú!

10.11.10

Tíðkast nú hin stóru skærin...

Gnarr í fyrradag. Björk í gær. Hver ætli komi með grándbreik í dag?

Annars er ekki tími til að vera að fylgjast eitthvað með. Rignir verkefnum. Brjálað að gera. Ekki peningar í neinu, samt, sko. Svo merkilegt með það. Nema því að eiga börn. Við verðum alltaf jafnhissa þegar við fáum barnabætur. Reiknum aldrei með þeim, einhvernveginn.

En verkefnastaðan er nú samt þannig að það þarf að skipuleggja sig vel ef maður ætlar að ná klósettferðum og almennum lágmarksreglum um persónulegt hreinlæti. Svo er kannski spurning um að hætta að asnast til að drekka kaffi á leikæfingum á kvöldin, þannig að maður sofni einhverntíma fyrir eitthvað fáránlegt á nóttunni? Væri hreinasta gáfulegt bara.

Annars er ég að spá í að setja upp örstuttan einþáttung fyrir dagskrá sem ku eiga að eiga sér stað síðustu helgina í nóvember. Af því að það er nú svo lítið að gera. How hard can it be?

Altént er ég ekkert stressuð yfir neinu af þessu. Ætla að reyna að gera allt vel en ekkert að sparka í sjálfa mig fyrir að neitt sökki hjá mér. Þorvaldi Þorsteins tókst nefnilega að kenna mér, á fjórum helgum í október, að það væri asnalegt að láta svoleiðis. Pétur Tyrfingsson reyndar búinn að leggja grunninn að því mjög vel og vandlega á þunglyndis- og kvíðaröskunarnámskeiði í fyrra.

Það endar með því að ég hætti aðfara fram á að allt sem ég geri sé fullkomið!
Það væri nú gaman.
Sennilega bara fyrir alla.

Ókei. Póstdrama.

9.11.10

Gnarrenburgh!

Jón Gnarr talar ekki pólitík. Hann er algjörlega eintyngdur á mannamál. Hann er ekkert góður í að segja setningar sem hljóma eins og þær séu um eitthvað en þýða ekki neitt. Og hann segir aldrei "auðvitað". Hann sendir aldrei samflokksmenn sína til að svara óvinsælum spurningum. Hann ætlar ekki í endurkjör, heldur aðeins að sitja í fjögur ár í svörtustu kreppu þar sem hann þarf eingöngu að taka óvinsælar ákvarðanir.
Hverjum dettur í hug að gera sjálfum sér annað eins og þetta?

Fáum. Kannski engum öðrum.

Og þetta eru mjög merkileg tíðindi fyrir stjórnmál á Íslandi. Kannski víðar.

Margir eru mjög hræddir við þennan borgarstjóra. Ég held að það sé þó hræðslan við hið óþekkta frekar en að þeir telji fyrri borgarstjóra og pólitíkusa hafi verið svo ofboðslega starfi sínu vaxnir. Stjórnmálamaður sem aldrei viðurkennir mistök er annaðhvort alveg nautheimskur eða hraðlyginn. Athugist að þjóðin er á hausnum og enn hefur enginn viðurkennt hvorki mistök né brotavilja.

„Borgarmálin eru ekkert djók“ segja margir, með hræðslu-við-breytingar-glampa í augum.
Halda menn í alvöru að allir í Ráðhúsinu séu bara að djóka núna? Sitji bara og horfi á Næturvaktina og segi brandara? Ég sé ekki betur en að verið sé að skoða alls konar sparnaðarleiðir og ég veit ekki hvað. Og við höfum borgarstjóra sem hefur komið auga á það að borgarstjóra er ætlað að mækrómanagera allt of miklu innan borgarinnar. Svo kannski er ekki nema von að enginn þeirra hafi sinnt sínu starfi af viti. Það er hins vegar ekki í eðli pólitíkusa að skerða völd sín.

Gaurinn sem gerir Zeitgeist-myndirnar sagði þrennt þurfa að hverfa til að mannlegt samfélag yrði af einhverju viti. Pólitík, trúarbrögð og peningakerfið. Hann taldi erfiðast að losna við peningakerfið. Ég held hins vegar að pólitíkin hverfi aldrei alveg. Almenningur sækir í öryggi, einhvers konar kerfi og/eða reglur sem, í nútímanum, teljum við að einhvers konar yfirvald þurfi að skipuleggja.

Að sækjast eftir völdum í samfélaginu af einhverju öðru en valdagirnd og sjálfum sér til dýrðar er hins vegar fordæmalaust.

Jón Gnarr kemur alltaf út eins og hálfviti. Auðmjúkur hálfviti, þó. Breyskur og mannlegur gaur sem hefur aldrei keppt í Morfís.

Þegar hann var búinn að líkja sjálfum sér við Predator í íslenskri pólitík (líking sem ég held að fleiri skilji heldur en nokkuð sem nokkur annar borgarstjóri hefur sagt) sagði spyrill: Þetta er bara bull sem þú ert að segja!

What?

Menn mættu nú alveg skella þessu framan í Ráðherra/þingmenn/pólitíkusa þegar þeir eru búnir að segja setningar á borð við:
„Það er auðvitað alveg ljóst að það þarf að fara ofan í saumana á þessari ákvörðun og skoða allar hliðar málsins áður en ákvörðun er tekin um næstu skref í stöðunni.“

Heyrðu vinur, þetta er bara bull sem þú ert að segja!

Hvað ætli fyrrverandi borgarstjóri Davíð Oddsson hefði verið lengi að sjá til þess að sá spyrill starfaði aldrei framar á fjölmiðli?

Já, ég er víst að slóra. Og þó ekki... Besti flokkurinn er að taka sér stærra og stærra pláss í doktorsritgerðinni minni. Enda hvalreki þegar maður ætlar að rannsaka pólitíkst leikhús á ákveðinu tímabili að þá taki leikhúsið sig til og brjótist inn í pólitíkina.

4.11.10

Lækjarbrekka og Social Network


Í fréttum er það helst að Rannsóknarskip á afmæli á morgun, foreldrin mín koma í bæinn í dag, reyndar í öðrum erindagjörðum, en ætla að hefja helgina á því að passa ormana fyrir mig í kvöld svo við Árni getum skroppið út að borða og í bíó. Stefnan tekin á Lækjarbrekku og Social Network.
Í tilefni dagsins klippti ég á mér toppinn og ekki er ólíklegt að ég skreppi niðrí bæ í afmælisgjafaleit.

Annars er þvílíkt jólakortaveður úti núna. (Fagra og jólalega tréð á meðfylgjandi mynd er reyndar frá Egilsstaðajólum fyrir 3 árum eða svo.) Kirkjugarðurinn við Suðurgötu var alveg dásamlegur við sólarupprás og ég spáði dáldið í hvers vegna mér hefði ekki hugkvæmst að vera með myndavél.

Í framhaldinu fór ég að spá í hvort þetta væri ekki týpískt fyrir hina innri frekju nútímafólksins. Það er ekki nóg að sjá og upplifa eitthvað dásamlega fagurt og njóta þess, heldur þarf að festa það á filmu svo maður geti séð það alltaf og hvenær sem maður vill. Það þarf alltaf að vera hægt að gera allt hvenær sem maður vill. Við missum af öllu af því að á meðan við erum að upplifa það erum við að reyna að finna leið til að upplifa það sama aftur. Hvenær sem við viljum.

Éld þetta sé kannski vitleysa.
Kannski er alveg nóg að ganga einu sinni framhjá kirkjugarðinum við Suðurgötu fyrsta daginn sem hann er í jólafötunum og anda að sér snjólyktinni á meðan. Vilji maður njóta þess lengur er hægt að gera svolítið alveg byltingarkennt.
Nema staðar.

3.11.10

Nenni Siggi

Eins og hverju ætli maður nenni í dag?

Það er opinberlega orðið alveg biksvart heimskautamyrkur úti þegar maður fer í vinnuna. Og brjálæðislega kalt, ofan í kaupið. Og ég hékk heima með Freigátuna sem var næstum alveg hætt að vera lasin í gær. Hún hékk mest í tölvunni og horfði á They Might Be Giants myndbönd. Ég hékk og horfði á How I Met Your Mother í akkorði. Og er búin með það sem ég á af því.

Ég verð að fara að gera eitthvað.

Annars var Allrasálnamessa í gær. Daginn þaráður var Allraheilagramessa. Ég fór að gúggla þessu þegar ég mundi ekki hvort var daginn eftir Hrekkjavöku. Svo kaþólikkar eru voða mikið í Allramessum þessa dagana. Annars væri gaman að gefa út allsherjardagatal. Þar sem merktir væru allar messur, frídagar og helgidagar allra trúarbragða, tunglið, merkilegir dagar í vestrænni og kínverskri stjörnuspeki, allir dagar sem eru tileinkaði einhverju... og gá svo hvort einhver dagur er eftir. Kannski jafnvel að lýsa hann friðhelgan. Venjulegi dagurinn. Bannað að tileinka hann neinu eða einu sinni eiga afmæli á honum!

Ég þarf að lesa Postdramatic Theatre eftir Lehmann. Svo þarf ég líka ógeðslega mikið að halda áfram að skrifa stóru ritgerðina mína. Klára allavega innganginn fyrir áramót. En það er bara þoka í hausnum á mér þessa dagana. Og óstjórnleg leti. Og krónísk syfja. Eiginlega bara næstum eins og það sé ennþá október.

Best að lesa.
Lehmann, you and me, baby!

1.11.10

Nóvember!

011110. Þeir sem vilja eiga symmetrísk binary-börn, drífi sig næsta tækifæri er ekki fyrr en eftir ár. 111111. Annars eru nóg tækifæri í þessum mánuði fyrir venjuleg ó-symmetrísk binary-börn. 101110, 111110... og svo meira í janúar, október og nóvember á næsta ári. Fullt af binary-börnum.
Lítil vélmenni úti um allt.
Svo er annarhver fésbókarvinur á leiðinni á fæðingardeildina, eða nýkominn af henni. Og svona var þetta nefnilega líka um svipað leyti fyrir ári.

Var heima fram að hádegi og er ekki komin í gang. Deddlæn hrúgast í kringum mánaðamót þessi misserin og nú er að byrja að hugsa fyrir öllu sem á að gerast í kringum þau næstu. Dagurinn (eða eftirmiðdagurinn) átti nú að fara í einhverja skipulagsvinnu. En það er bara ekkert að gerast. Mig langar bara til að vera heima og horfa á How I Met Your Mother. Ennþá fleiri þætti í röð. Voða lítið stress í gangi. Svo ku eiginmaðurinn eiga afmæli á föstudaginn. Hann mun vera búinn að panta foreldra mína til að passa ormahauginn og við utlum sko út að borða og í leikhús, eða eitthvað. Einstaklega sjaldgæfur lúxus það.

.... Nei, þetta er ekkert að gerast. Best að... eitthvað.