2.2.04

Og við höfum febrúar!
Ljómandi fínt, alveg. Reyndar gífurlega svakalega mannskemmandi kalt... þessi íslenski vetur sem mér fannst ógurlega spennandi að hitta aftur í október er eiginlega alveg að hætta að skemmta mér, sem slíkur. Pirrar mig samt ekki jafn mikið eftir eins og tvær vetursetur erlendis, einhverra hluta vegna. Ég er reyndar ennþá gífurlega hamingjusöm að vera aftur á Íslandi, þar sem fólk kann að segja nafnið mitt, ég veit hvar næstum allt er og hvernig það virkar, og síðast en ekki síst þar sem maður sér langt. Ég hef varla hætt að glápa á fjallahringinn í ellefu mánuði. Segi og skrifa, enn einu sinni: Ísland! Best í heimi!
Vegabréfið mitt er ennþá útrunnið, og er það vel.

Af fréttum: Hlugleikur er nokkurn veginn endanlega fluttur í sitt nýja húsnæði úti á sjó og búið að tengja ofna þar og alltsaman. Þar er ljómandi gaman að vera og ég stend mig að því að vilja helst ekki fara þaðan. Búningavinna og æfingar eru í fullum gangi og allt lítur þokkalega út, sýnist mér. Í gær fékk ég t.d. flottasta búningshluta sem ég hef nokkurn tíma borið gæfu til að fá að íklæðast á sviði. Ég hreinlega vissi ekki að það væri hægt að gera hatta úr hænsnaneti! (Verð reyndar að passa mig á því að vera ekki að faðma fólk mikið með þann eðalgrip á höfði, var næstum búin að stinga augun úr henni Ástu minni í gær.)

Annars bara, allt við það sama. Fór í leikhús um helgina og tjáði mig um þá reynslu á leiklist.is.

Engin ummæli: