Jæja, þá er best að segja eitthvað frá þessari fínu hátíð sem ég var á.
Byrja á byrjuninni.
2.8.
Ég ferðaðist sumsé út með Vibbu, Höllu og Lalla. Við flugum til Köben um hádegið, (örugglega í fyrsta skipti sem ég er ekki að fljúga til útlanda um miðja nótt) stoppuðum stutt þar og héldum síðan áfram til Tallin. Þegar við komum á hótelið þar var næstum komið miðnætti, en við vorum í fullu fjöri, enda klukkan bara um 9 leytið að íslenskum tíma. Við fórum í bæinn og fundum stað þar sem hægt var að borða og drekka, ég endurnýjaði m.a. kynni mín af baltísku eðalsnakki sem er steikt rúgbrauð með hvítlauki. Þar með hófst þessi fína matarvika, en maturinn í Eistlandi var gegnumsneitt góður, þó hann liti reyndar misvel út.
Gistum á ágætis hóteli í Tallin, þar sem voru m.a. mjög greinargóðar leiðbeiningar um hvernig maður pantaði klám í sjónvarpið sitt. Ég lét það reyndar vera, en fékk hins vegar mikið út úr því að reykja í rúminu mínu.
3.8.
Vöknuðum í aftureldingu, fórum í morgunmat og fengum okkur rölt um gamla bæinn Í Tallin og fengum okkur síðan bjór klukkan hálfátta um morguninn að íslenskum tíma. Um hádegi þrusuðum við síðan út á flugvöll til að taka rútu til Viljandi. Landslagið á leiðinni var grænt og nokkuð skógi vaxið, þó ekki þannig að maður sæi bara tré. Gladdi mjög mitt Héraðshjarta. Komum til Vana Voidu, þar sem við gistum, um 3 leytið, þá var matur og síðan rúta til Viljandi á fyrstu sýningu hátíðarinnar.
Litháíska sýningin: Ungliðahreyfingin Aglija, uppsetning á sögunni um Rauðhettu eftir Mörtu Tikkanen.
Þetta var flott sýning, mjög hreyfilistræn og tæknilega frábær. Sennilega hefði maður skilið samhengið betur hefði maður verið búinn að lesa söguna, sem líklega er eitthvað "spinnoff" af upprunalegu rauðhettusögunni. Sýningin sjálf var samt alveg og hélt mér allavega nokkurn veginn alveg, þrátt fyrir ferðaþreytu og ótímabæran bjór um morguninn.
Svo var opnunarhátíð sem hófst á einhverjum einkennilegum dansi fluttum af eisneskum ungmennum og einhverjum slatta af ræðuhöldum. Hefði verið betra að vera ekki búin að sjá veitingarnar sem við áttum að fá eftir... Svo kom:
Eistneska sýningin. Stúdentaleikhúsið í Tartu. Elisaveta Bam eftir Daniil Harms.
Söguþráðurinn minnti soldið á Réttarhöldin eftir Kafka. Tveir ákærendur komu og ákærðu Elisavetu og enginn vissi almennilega tildrög eða þannig. Þau voru að gera tilraunir með að blanda saman ýmsum formum. Þau voru líka með hljóðmottur (nokkuð sem var regla frekar en undantekning á þessari hátíð) þetta gekk stundum upp hjá þeim, og stundum ekki, eins og gengur. Þokkalegasta útkoma samt.
Þá var aftur þrusað upp í rútu og keyrt til Vana Voidu og borðað og hátíðarklúbburinn athugaður. Á honum voru nokkrir meinlegir gallar. T.d. var bannað að reykja inni, þar var líka alveg svakalega heitt, þannig að ef manni varð á að setjast þar niður með sinn bjór var maður yfirleitt fljótlega sofnaður. Þetta kvöld héldu reyndar Eistar uppi ágætis stuði með nikkuleik og fjöldadansi, en þetta reyndist vera eina kvöldið sem upp á slíkt var boðið. Annars var yfirleitt ekki einu sinni tónlist þarna inni. Hátíðarklúbburinn var sumsé svo lamaður að 70 króna bjórinn gat ekki einu sinni bætt manni það upp.
Meira síðar.
10.8.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli