12.8.04

Áður en lengra er haldið verð ég að tala aðeins um flugur og Guaccamole. Þar sem við gistum voru tvær litlar tjarnir með einhverjum gulgrænum viðbjæði í. Gárungarnir sögðu að þarna væru komnar stærstu guaccamole námur Evrópu og þar væru nú upplagt fyrir hugleikara að "synda í maukinu". Þetta þótti tveimur hullurum allt í einu alveg arfagóð hugmynd, einhverntíma í ölvímu nætur eftir sýningu, og stungu sér til sulls. Hefndist þeim nú eitthvað fyrir það, fengu í sig ýmsa guaccamoletengda óáran sem komst í flugnabitin þeirra með hinum slæmstu afleiðingum.

Hin ýmsustu flugnabit hrjáðu Íslendingana mjög. Sennilega langt síðan hinar eistnesku pöddur höfðu fengið almennilegt víkingablóð. Ég var nú heldur en ekki góð með mig á meðan á ferðinni stóð, fékk næstum ekkert bit... þegar heim var komið fór hins vegar ýmislegt að koma í ljós. Ég var sumsé ekkert sérstaklega bitheppin, heldur. Bara svakalega sein að fatta. Áfram með smjerið:

6.8.
Enn og aftur ræsing á óguðlegum tíma, í þetta skipti skoðunarferð til stúdentabæjarins Tartu. Það er fallegur bær nálægt landamærunum við Rússland. Við fengum leiðsagða skoðunarferð um bæinn með stoppum við styttur af ýmsum frægum mönnum og glefsur úr sögu þjóðarinnar. Það var fróðlegt, en nokkuð heitt í 32 stiga hita og sól. Eftir labbitúrinn fengum við frjálsan tíma til að þvælast um bæinn og honum var að einhverju leyti eytt í að hvíla þreytta fætur og sötra eitt og annað. Einnig herjuðum við talsvert á verslanir. Hugleikur verslaði sér m.a. "gong" og eftir það enduðu mörg lög og ýmislegt annað á "GONNNNG!"-i. Ég keypti mér rauðan og rósóttan sumarkjól með allskyns pífum, sem ég reiknaði sosum aldrei með að geta notað aftur, og var þessvegna í það sem eftir var ferðar.

Svo fóru allir saman út að borða á veitingastað sem áður var púðurgeymsla og þar voru íslendingar náttlega með læti og gong og sungust svolítið á við Dani, yfir glerþunn höfuð Finnanna.

Þegar við komum aftur til Vana Voidu hófst gagnrýnifundur um sýningarnar. Þar voru í Panel Jacob Oslag frá Damnörku og heimamaður sem ég man ekki hvað hét. Ýmislegt var sagt, misgáfulegt og stundum sýndist sitt hverjum eins og gengur.

Þessum næstsíðasta degi lauk með kvöldmat og kjafti á moskítóbarnum.

7.8.
Síðasti dagur hátíðarinnar hófst á ýmsum námskeiðum og þróunarfundi um framtíð Neata. Ég byrjaði á honum, en þar var ýmislegt rætt og rifist um. Svo fórum við nokkur á stutt námskeið í sviðsslagsmálum sem var hið skemmtilegasta. Við fengum að leika okkur með prik og berja hvert annað með höndunum. Fengum mikið út úr því.

Eftir hádegismat var síðan haldið til Viljandi á gestasýningu hátíðarinnar (þ.e. sýningu sem kom utan NEATA svæðisins) frá Belgíu. Hún reyndist hinn mesti hroði. Byggingarlaus hystería með vondum leik á köflum og hljóðmottu sem hefði getað drepið hest. Ég fór út í hléi, ásamt með hálfum salnum, og skammast mín ekki baun fyrir það, þó svo að mér þyki það mikil ókurteisi, svona alla jafna.

Um kvöldið var síðan lokapartí, það var hið ágætasta fólkið úr bandalagsskóla Eista skemmti okkur með því að gera grín að hinum sýningunum í skuggamyndaformi, og svo gerðum við sjálf grín hvert að öðru. Miðnætursnarl var síðan vel útilátið hlaðborð af allskonar smáréttum sem erfitt var að slíta sig frá. Kórónaði algjörlega matarhliðina á þessari hátíð sem var öll hin besta.

8.8.
Vöknuðum, pökkuðum og lögðum af stað heim. Ég ferðaðist alla leið með Lalla og Höllu. Við flugum strax til Köben og áttum langt stopp þar, þvældumst um strikið og versluðum smá. Á leiðinni heim sáum við Dóri eldingar. Fréttum seinna að það væri fyrirboði hitabylgju. Talandi um að taka veðrið með sér...

Engin ummæli: