19.11.04

Langhundur

Aldrei slíku vant er rólegt í vinnunni og ég fór að huxa um kennarana og þjóðfélagið. Kom sjálfri mér á óvart (eða þannig) með því að hafa aragrúa af róttækum skoðunum. Nú er ég að huxa um að hrifla smá, enda er þetta eins og með sígarettuna og strætóinn, þá kemur örugglega einhver.

Fyrst verð ég að setja milljón spurningarmerki við þessar undarlegu tölur sem ég er búin að vera að heyra um "meðallaun". Og líka, um laun eftir háskólamenntun. Ég er með 5 ára háskólamenntun, búin að vera með þriggja ára háskólamenntun árum saman og hef aldrei nokkurn tíma komist nálægt þeim launum sem kennarar eru að fara fram á í byrjunarlaun. Og það er ekki bara ég. Svona allt í allt þá sýnist mér fólk þurfa að vera komið mjög langt upp metorðastigann hjá sínu fyrirtæki til að vera komið með það sem í dag er kallað "meðallaun".

En, mér finnst kjarabarátta kennara alls ekki eiga að snúast um það. Heldur þarf að leiðrétta alvarlega hugsanavillu í samfélaginu.

Það er einhvern veginn þannig að í dag vilja menn meta allt til fjár. Ekkert telst með nema það sé hægt að sýna fram á hagnað í krónum og milljónum. Heilbrigðiskerfið á að standa undir sér. Sem og menntakerfið. Og það í peningun, heilbrigði og menntun múgsins virðist bara ekki skipta nokkru einasta máli í þessu samhengi. Er ekki eitthvað bogið við þessa heimsmynd? Manngildið er úrelt. Fólk þarf að skila hagnaði með allri sinni tilvist. Annars hrynur hagkerfið og það er sko alvarlegra en Skaftáreldarnir.

Þó svo að ég hafi ekki komið að fjölgun mannkyns á einn eða annan hátt þá, svo ég vitni í Whitney Houston, trúi ég því nú samt að börnin séu framtíðin.
Kennarar gegna mikilvægasta hlutverki í þjóðfélaginu. Þeir eru að ala upp komandi kynslóðir. Þetta er starf sem verður aldrei metið til fjár. Og hæfileikunum sem fólk þarf að hafa til að vera góðir kennarar er ekki hægt að ná með neinni menntun.

Mér finnst að, sama hvað það kostar eða hvaðan peningarnir koma, eigi kennarar að vera með hæst launuðustu stéttum þjóðfélagsins. Skilyrðislaust. Kennarastöður eiga að vera svo eftirsóttar að á hverju hausti ætti hver einasti skóli að geta valið úr aragrúa umsókna og greina hafrana frá sauðunum og velja hæfasta fólkið í þjóðfélaginu til að sinna þessum mikilvægu hlutverkum. Og þessi hæfni fer alls ekkert endilega eftir menntun. Kennarar þurfa að geta haldið aga, alveg án þess að fá kvíðaköst, í 20 manna bekk. (Ættu reyndar að vera fleiri og þurfa að kenna færri í einu.) Þeir þurfa að geta menntað marga og mismunandi einstaklinga í ýmsu, sinnt þörfum hvers og eins, tekið á öllum vandamálum sem upp kunna að koma og verið um leið góðar og heilsteyptar fyrirmyndir. Þeir þurfa að vera algjör ofurmenni.

Sjálf fæ ég kvíðaköst við það eitt að hugsa til þess að vera í þessari aðstöðu og fólkið sem leggur á sig þetta hugsjónastarf á góðan slurk af minni virðingu.

Og mér finnst þetta alltsaman liggja svo gjörsamlega í augum uppi. Ég þoli ekki að hinn vestræni heimur skuli liggja svo gjörsamlega á hægri hliðinni þessa áratugina að það skuli vera orðin mönnum algjörlega hulið hvað skiptir máli í þessum heimi. Meira að segja uppeldi barna þarf að "borga sig"! Í peningum!

Ég er búin að vera viðvarandi fokkíng pisst off yfir þessu öllu saman frá því að ég fæddist og kommúnistinn og mannúðarpúkinn í mér rís annað slagið upp á afturlappirnar og brjálast þannig að minnstu munar að ég stofni stjórnmálaflokk. (Guð forði...)

Svo get ég nú yfirleitt svæft þá félaga aftur með því að leggjast aftur til sunds í efnishyggjunni og hugsa um hvað ég ætla að kaupa næst í fallegu, barnlausu og mannúðarsnauðu veröldina mína.

Engin ummæli: