31.1.05

Komin að norðan og gerði góða ferð.
Hitti Rannveigu, vinkonu vora, og yngri son hennar sem er nýfæddur og fagur eftir því. Hann gerði móður sinni þann greiða að fæðast á afmælisdegi eldri bróður síns, þannig að hún Rannveig getur látið nægja eitt stórt barnaafmæli á ári í framtíðinni. Það er náttúrulega frekar snjallt.

Svo eyddi ég náttúrulega helginni í góðu yfirlæti hjá Rannsóknarskipinu mínu og Smábátnum og hafði þann fyrrnefnda meðferðis í bæinn.

Fyrir helgi átti ég líka langt og merkilegt samtal við systur mína, þá er elur manninn fyrir austan þessa dagana. Hún var uppi á háa c-inu, aðframkomin af samfélagslegri óþægð og skoðanagleði um hvað betur mætti fara fyrir austan. Þetta varð mér talsvert umhuxunarefni. Svona varð ég einmitt á því að búa á Egilsstöðum um tíma. Það varð mér einhvern veginn allt að skoðunum. Ég var hoppandi yfir bæjarmálunum, menningarhúsmálunum, að gamla mjólkurstöðin skyldi eiga að verða að verkfræðistofu, og svo mætti áfram lengilengilengi telja. Hefði ég haldið áfram að búa á Egilsstöðum hefði ég verið komin út í bæjarpólitík og í svona fimmtán nefndir að fáum árum liðnum. (M.ö.o., orðin faðir minn.) Það var eiginlega talsverð hvíld í því að flytja síðan aftur í höfuðstaðinn þar sem manni er slétt sama um næstum allt sem kemur manni ekki alveg þráðbeint við.

En hverju skyldi sæta þessi skoðanaveiki sem vér frenjur fáum þarna á heimaslóðum? Til að byrja með lét ég fara í taugarnar á mér slydduhátt Hérastubba. Menn höfðu jú alveg skoðanir, en flestir virtust takmarka tjáningu þeirra við kaffibollaraus og stöku baktjaldamakk. Fáir skrifuðu reiðar greinar (um neitt sem máli skipti) eða rifust í Svæðisútvarpinu. Fljótlega komst ég síðan að ástæðu þessa. Í svo litlu samfélagi getur maður nefnilega illa snúið sér svo mikið sem í hálfhring án þess að vera búinn að stíga ofan á tærnar á einhverjum. Og þar sem allt manns félagslíf og... tja bara líf, er undir fáum einstaklingum komið, þá eru þeir hlutfallslega margir sem maður vill ógjarnan pirra. Þannig fara skoðanir manns fljótlega að lenda í meira og meira mæli ofan í kaffibollunum.

Í framhaldi af þessu vangaveltum nú fór ég að spekúlera meira í stöðu brottfluttra. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að afskiptasemi slíkra af sinni fyrrverandi heimabyggð sé óviðeigandi og eflaust illa séð á svæðinu. Eða hvað? Þurfa kannski brottfluttir einmitt að vera málpípur fyrir þá sem ekki geta tjáð sig sökum nálægðar við menn og málefni á staðnum? Held svei mér þá að það geti verið að ég þurfi að skipta um skoðun og mæla með því að börnin beini sjónum sínum einmitt heim í Hérað og ibbi sig.

Þetta var hreppapólitík daxins.

5 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Þar hittirðu höfuðið á naglann. Að stíga á valdamiklar tær getur orsakað miklar fjelagslegar þrengingar og fjárhagslegar.

Nafnlaus sagði...

Jón Knútur segist ætla að birta bréfið mitt í næsta Austurglugga!!! Eftir að hafa lesið ódauðleikan eftir Milan Kundera hef ég ákveðið að ég vilji frekar vera rifin á hol og láta minnast mín sem illgjarnri manneskju eftir dauðann, heldur en vera bara venjuleg skoðanalaus Gunna, sem fellur í gleymskunnar dá eftir sína daga.
Hugrún

Sigga Lára sagði...

Já, ritstjóranum ætti ekki að þykja ónýtt að fá hressilegar ritdeilur í Austurgluggann. Umaðgera.

Þórunn Gréta sagði...

Meira hvað þessi skyldmenni mín geta verið praktísk. Föðurbróður Rannveigar=móðurbróður mínum tókst líka að gefa báðum dætrum sínum sama afmælisdaginn, og í millitíðinni hafði enn eitt systkinið, notað þann dag í barnsfæðingu, sumsé 5 börn og tveir afmælisdagar....

fangor sagði...

miðað við viðbrögðin sem við fengum við börnin heim- listanum er það akkúrat slíkir hlutir sem samfélagið vantar. og það er fyndið að rífast í austurglugganum. við ættum auðvitað að taka okkur saman og skiptast á að vera með brottfluttra-pistilinn.