3.3.05

Fékk ruslpóst sem hófst á þessum orðum:

"Til að ná hámarksárangri í lífinu þarf skýra stefnu, skrifleg markmið, jákvætt hugarfar, þrotlausa vinnu og þrautseigju."

Já, það er þetta með árangurinn. Svo maður tali nú ekki um "hámarksárangur í lífinu". Hvenær er maður búinn að ná hámarksárangri í lífinu? Og ef maður gerir það eingöngu með því að vera sífellt og þrotlaust að vinna að niðurskrifuðum markmiðum, fullur af uppgerðarkæti, er maður þá ekki að lifa frekar þreytandi og leiðinlegu lífi? Og er það ekki árangursleysi í sjálfu sér?

Það vefst svo mikið fyrir mér þetta með að "komast áfram" í lífinu og "ná árangri". Stundum er eini árangurinn sem mig langar að ná þann daginn sá að reyna að komast heim áður en endursýning á Survivor byrjar. Og þá er algjörlega hámarksárangri náð. Hann felst hins vegar alls ekki í að skrifa neitt niður eða sýna neina þrautseigju, heldur eingöngu í því að sitja ekki of lengi á kjaftatörn eftir leikæfingu.

Annars ætla ég nú svosem ekkert að vera að gera mig heimskari en ég er. Veit svosem alveg af hverju "árangur" samanstendur í viðteknum gildum nútímasamfélax. Það ku vera peningar, völd og jafnvel frægð, eða einhvers konar viðurkenning umhverfisins.

Þetta með peningana get ég svosem skilið, uppað vissu marki. Vissulega væri gaman að vita ekki aura sinna tal. Það þyrfti samt að gerast átakalítið og með einhverju skemmtilegu. Vil heldur lepja dauðann úr skel heldur en að vinna þrotlaust með þrautsegju að einhverju.

Þetta með völdin skil ég alls ekki. Þeim fylgir ábyrgð. Ég þoli hana ekki.

Því síður þetta með frægðina og þetta sem klapp á rassinn frá samfélaginu sem margir virðast þurfa mikið á að halda. Ef maður er ekki sæmilega sáttur við sjálfan sig er ekkert sem umhverfið getur gert í því. Og frægð felst aðallega í því að ókunnugt fólk er alltaf að bögga mann. Vill það einhver?

Wellwell, ég er allavega búin að setja mér markmið um hámarksárangur í dag. Ég ætla að nenna í bankann. Ég ætla ekki að skrifa það niður.

PS. Fyrir þá sem langar ógurlega til að læra að ná árangri, þá var þetta upphaf á auglýsingu um námsstefnu á laugardaginn með Brian Tracy. Hún heitir:

Hámarksárangur - Sannreyndar aðferðir og lögmál sem leysa úr læðingi hæfileika þína til að ná árangri.

Maður veit nú bara ekki hvort maður að að hlæja eða gráta. Hæfileikar til að ná árangri... er það ekki bara að nenna hlutum? Er einhver virkilega svo skynsemi skroppinn að hann þurfi að fara á námskeið til að láta segja sér það?

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyrheyr...

fangor sagði...

hah! ég hef mikla hæfileika til að ná árangri. ég bara nenni því ekki í bili..:Þ

Nafnlaus sagði...

ég keypti einu sinni þessa bók sem hann gaf út,og þvílíkt og annaðeins drepleiðinlegt stöff hef ég aldrei lesið, gafst upp eftir 3mán og var engu nær. Er þetta kannski vel útfært peningaplokk eins og kananum einum er lagið? gua

Gadfly sagði...

Mér finnst þessi bók hinsvegar algjör snilld. Allt saman vitaskuldir en meirihluta þeirra hef ég ekki tileinkað mér og hef því gott af að rifja þær upp. Brian Tracy byggir á þeirri kenningu að fólk sé ánægðara með sjálft sig þegar það stendur sig vel (óháð frama) og að fjárhagslegt öryggi sé forsenda þess að hægt sé að gera nokkuð af viti. Það mun rétt vera og tær snilld að geta grætt milljónir á milljónir ofan, bara á því að segja fólki það sem allir í rauninni vita, á þann hátt að við hlustum og viljum heyra meira og aftur og förum að trúa því að ef okkur langar eitthvað sem er töluvert erfiðara en að komast heim áður en Survivor byrjar, þá sé hægt að finna leið til þess.