8.4.05

Van-eirð

Er komin með óþreyju. Fullt af skemmtilegu ALVEG að fara að gerast. Samt ekki meira ALVEG en svo að fyrst þarf að bíða eftir sumrinu. Ég er gjörsamlega að gefast upp á að láta tímann líða. Og svo því sem ég þarf að gera nenni ég ekki. Finnst ekkert af því gaman.

Og svo rignir ofan í gatið á þakinu mínu (sem ég nenni ekki að láta laga) og ég á ekki túskilding með gati til að láta gera viðða (vegna þess að ég nenni ekki aukavinnum) þinglýstir pappírar með veðinu sem pabbi minn er að taka í leku íbúðinni minni eru enn hjá sýslumanni (nenni ekki að sækja þá) og eyðublaðið sem ég gleymdi að gera í skattframtalinu mínu er enn óútfyllt og óskilað (nenni ekki að reyna að komast að því hvað lántökukostnaður er) og ef ég skila ekki þessu fokkíngs blaði fæ ég ekki vaxtabætur.
Held það sé alveg ljóst að ég nenni ekki að eiga húsnæði. Ætla að skrá það á sölu. Bara nenni ekki á fasteignasöluna.

Og við vorum búin að bjóða Rússum á leiklistarhátíð á Akureyri, en nú lítur ekki út fyrir að þeir komist sökum fjárskorts í Rússlandi. Hvernig má nú líka annað vera þegar hver sótrafturinn uppaf öðrum hangir inni á lista yfir ríkustu menn Bretlands á rússneskum peningum? Eftir að Björgúlfana og Abramovitsj er greinilega bara sviðin jörð. Spurning hvort Bjólfarnir þrír og Chelsea ættu ekki að styrkja Maneken til Íslands? Samvisku sinnar vegna? Í staðinn gæti kynnir sagt, í lok farsímaræðunnar í upphafi sýningar: „Þessi sýning er í boði Chelsea!“ (Verst að þá myndu Liverpool- og Arsenal-fanatíkerar sennilega labba út...)

Og áhugaleysi alþjóðar er þvílíkt að það er ekki enn orðið fullt á eitt einasta námskeið á Leiklistarskóla Bandalaxins. Ef svo heldur sem horfir verður hann ekki einu sinni. Hvar eru til dæmis allir sem eru búnir að vera að grenja eftir byrjendanámskeiði í leikstjórn, árum saman? Þeir eru allavega ekki á skráningarlistanum. Þar eru fjórar (reyndar afar fallegar) hræður. Hop tú itt, pípúl.

Og nú ætla ég að hætta að geðvonskast. Framundan er síðasta sýningarhelgi á Patataz. Það er nú gaman.

6 ummæli:

Ásta sagði...

Ef ég gæti hrist 30 þúsund kall fram úr erminni mundi ég skrá mig med det samme.

Nafnlaus sagði...

Ætli það hafi áhrif á aðsókn að BÍL skólanum að það hafi spurst út að ég komist ekki þetta árið?

Held samt ekki...

Varríus sagði...

Myndi glaður sitja undir Maneken-sýningu í boði hr. Abramóvitsj. Því minni peningar sem hann á til að eyða í fótboltamenn, því betra fyrir okkur nallana.

fangor sagði...

ef ég hefði efni á færi ég í skólann. það er því miður það sama þetta árið, engir peningar og enginn tími...

Nafnlaus sagði...

Hmmm.. leyfist mér að leiðrétta nöfn Bjúlfanna, þeir eru Bjólfar, ekki Bjúlfar. Sonur minn er Bjúlfur enda heitir hann Björgúlfur. Þeir feðgar eru Bjólfar. Heita BjörgÓLFAR!!
Please, ekki rugla þessu saman. Annars heldur fólk kannski að Bjúlfur minn sé launsonur Bjólfs!!
Hey! Ekkert slæm hugmynd!! Barnameðlag er hægt að launatengja, er það ekki????

Gadfly sagði...

Það er svo aðaleinkenni nennekkjunnar að hún hegðar sér nánast eins og smitandi krabbamein, breiðir sig yfir á önnur svið tilverunnar ógnarhratt og nær jafnvel líka tökum á þeim sem maður umgengst ef ekkert er að gert. Bara ein leið út, að gera það samt.