30.5.05

Borg Óttans

Það er svo skrítið hvernig maður teygist og togast.

Ég fæ oft Austurlöngun. Langar heim í Egilsstaði, borða kleinur hjá mömmu minni, heimsækja ömmu mína og fleiri kellingar, fara í kuffélagið, á bókasafnið, Seyðisfjörð, og bara allskonar.

Svo les ég blogg systur minnar þar sem hún bölsótast yfir því að vera þar og vill komast aftur í bæinn. Ég öfunda hana stundum pínu að vera fyrir austan, í aðra röndina, en skil hana alveg, í hina.

En ég fæ mjög reglulega austþrá og fannst mjög ljómandi að búa þar um árið. Hafði reyndar hálfgerðar áhyggjur af því að ég hefði það allt of gott hjá foreldrum mínum við ýmsa þjónustu og viðurgjörning hinn mesta og myndi enda á því að búa í foreldrahúsum til æviloka, þeim til ama og leiðinda.

Stundum fannst mér samt ég vera alveg að drukkna. Ekki úr menningarleysi eða vöntun á félaxskap. Þvert á móti úr ofgnótt viðburða sem maður kunni ekki við að skrópa á sökum smæðar hins menningarlega samfélax. Og svo líka úr skoðunum. Á Egilsstöðum fæ ég gífurlega pólitískar tilhneygingar og er yfirleitt alveg að farast úr skoðunum á öllum sköpuðum hlutum um stjórnun samfélagsins.

Ég hefði mjög gaman af því að geta búið á Egilsstöðum, einhverntíma. En stundum er líka mjög þægilegt að búa bara í Reykjavík. Ekki út af framboði á afþreyingu, heldur þvert á móti vegna þess að hér getur maður skrópað á hvað sem manni sýnist. Það er nefnilega nóg af fólki hérna. Og manni getur líka verið jafnhjartanlega sama um stjórnun samfélaxins. Og þar býr líka Hugleikur og Bandlagið. Ég get ekki að því gert að það þykir mér mikilvægt.

Væri samt alveg til í að Egilsstaðir væru aðeins nær. Svona allavega þannig að maður gæti skroppið um helgar.

Í dag er ég allavega voða blú og langar heim til mömmu. Það er kannski vegna þess að Árni er farinn norður og nú verð ég ein í Borg Óttans og enginn passar mig fyrr en einhvern tíma seinnnt í júní. Mér finnst nefnilega þægilegt að láta passa mig. Þó ég eigi að heita fullorðin og næstum miðaldra.

4 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Ég bý í of litlum bæ, þó ég sé á höfuðborgarsvæðinu þá er ég alltaf að fá einhverjar pólitískar skoðanir, og er með samviskubit að hafa ekki mætt á opna æfingu Kvennakórs Garðabæjar :-)

En þú mátt alveg koma til mín í smá pössun ef þú vilt, grill og pottur, hvernig líst þér á?

Gadfly sagði...

Jamm. Þótt maður GETI alveg passað sig sjálfur og hafi svosem alveg gert það er ekki þar með sagt að maður vilji ekki alveg láta einhvern annan um það stund og stund.

Hugrún sagði...

Nei þetta er nú heldur ekki alveg hábölvað. En reglulegir matartímar geta líka orðið þreytandi og nú langar mig suður í eilífa súrmjólk, óreglulegt fæði og líferni almennt. En fínt að geta komið hér af og til.

fangor sagði...

ég skal passa þig ljúfan mín. þykist svosem ekki vera neitt rannsóknarskip en tel mig ágætasta humarbát..