Þá er loxins formlega búið að verðmeta dásamlegu íbúðina mína og setja hana á sölu. Hún er formlega metin á 9.9 milljónir. Þann eitthvaðasta október verslaði ég þessa sömu íbúð á kr. 8 milljónir. Skemmst er frá því að segja að ég hef gert nákvæmilega EKKERT fyrir hana, enda er ég smíðkona engin.
Í dag er eitthvaðasti maí þannig að síðan ég keypti eru um... reiknreikn... 7 mánuðir. Með því að eiga íbúð í 7 mánuði er ég búin að eignast 1,9 milljónir. Það er samsvarar einhverjum 250.000 kalli sem ég hef fengið á mánuði með því að eiga hanabjálkann. Þetta er eins og að borga and-leigu.
Þetta er allt ógurlega sniðugt. En tekið skal fram að þetta er alltsaman að gerast fyrir helbera tilviljun. Það er ekki eins og ég hafi viðskiptavit eða neitt. Hreint ekki baun. Enda má nú bara þakka fyrir ef ég kem út á sléttu þegar ég verð búin að borga verðbæturnar, fasteignasalagjöldin, uppgreiðsluhvaððanúheitir og svo skatt af öllu saman. Verða nú sennilegast engar hrúgur eftir af afgangi nema maður fari út í alvarleg skattsvik.
En, nú er bara að gá hvernig þetta kemur út á fasteignavefnum á morgun og sjá svo til hvort einhver bítur ekki á.
23.5.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Kapítalisti!!!!!
Ef í mér byggi kapítalisti myndi ég náttlega halda henni og leigja hana út á hundraðþúsundmilljónir á mánuði í nokkur ár. Þangað til lánin á henni eru allavega búin að borga sig eitthvað pínu upp.
Ég bara nenni því ekki. Það er svosem ekki kommúnistinn í mér, bara letihaugurinn.
Hnuss! Þetta skítvirkar auðvitað ef þú ætlar að flytja inn til draumaprinsins. En ef þú þarft að kaupa aðra íbúð þá er nú andleigugróðinn farinn fyrir lítið. Íbúðir allra hinna kapítalistanna hafa nefnilega hækkað líka. Ég held að raunhæfasta leiðin til að verða almennilegt kapítalistasvín í dag sé sú að taka upp kommúnískt fyrirkomulag, búa saman í stórum hópum í þröngu leiguhúsnæði, éta hrísgjón og útsölusvín, takmarka skemmtanalíf við generalprufur áhugaleikfélga og annað ókeypis og verða ríkur á því að borga upp skuldirnar sínar.
Er að fara að búa saman í hóp í leiguhúsnæði, við draumaprinsinn, son hans og önnur hjón stundum, svipað og ég hef gert meirihlutann af mínu bráðskemmtilega lífi. Mitt félax- og menningarlíf er yfirhöfuð ókeypis og samanstendur mest af gegeralprufum áhugaleikfélaga. Og minn matur samanstendur yfirleitt ekki einu sinni af útsölusvínum, þau eru dýrari en brauð og núðlur.
Á ég þá að skammast mín ef ég er hamingjusöm?
Skrifa ummæli