24.5.05

Peningarnir og lífið

Nú er það svo að mér hefur oft og gjarnan verið legið á hálsi fyrir að eiga alltaf péning, og það meiri en flestir samferðarmenn mínir. Í gegnum allar mínar skólagöngur gat ég djammað eins og skrattinn, reykt eins og strompur og stundað hvaða dægradvalir eða pizzuát sem mér sýnist. Þetta hefur mönnum þótt undarlegt og jafnvel farið í pirrur sumra. Þessi endalausa ljómandi fjárhagsstaða hefur líka satt best að segja vakið sjálfri mér furðu, þar sem fjármunasöfnun hefur aldrei nokkurn tíma verið mitt áhugamál. Upphaf að þessum vangaveltum mínum núna er spurning sem ég fékk í kommenti hér 2 færslum neðar um hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að fasteingahaukarnir ætli að svindla á mér, eða græða á mér. Svarið er nei. Á meðan ég á nokkurn veginn í mig og á er mér alveg sama hver er að svindla eða græða á mér. Sé þeim bara velkomið. Né heldur hafa peningar nokkurn tíma verið mér hvati til neins. (Eins og að fara í arðvænlegt nám, til dæmis.)

Kannski er ég búin að komast að því hvernig í þessu liggur.

Ég held ég hafi aldrei átt neitt meiri peninga heldur en aðrir. Veltan á mínum reikningum er sennilega með þeirri minnstu sem þekkist hjá einkaaðila sem ekki er á eftirlaunum eða örorku. Mér er hins vegar alveg sama. Mig langar sjaldan að gera neitt dýrt. Og þegar mann langar sjaldan að gera neitt dýrt, er óskaplega lítil ástæða til að kvarta yfir blankheitum. Kannski er málið einmitt það að mín blankheit eru ekki minni en annarra, mér er bara meira sama um þau. Og hef líka yfirleitt efni á flestu sem mig langar að gera. Eins og að fá mér kaffi með Nönnu niðri á bæ suma eftirmiðdaga.

Ég held að flíkurnar sem ég hef fjárfest í um ævina sem hafa kostað meira en 5.000 krónur séu teljandi á fingrum annarrar handar. Enda kaupi ég mér föt af illri nauðsyn, en sjaldan af neinni ílöngun. Innbúið mitt í heild sinni er sennilega ekki hundraðþúsundkalls virði. Aftur, nauðsynjar frekar en ílanganir. Enda kemur heimili mitt og fataskápar alltaf til með að líta út eins og bás í Kolaportinu. Og það böggar mig ekki neitt.

Það eina sem mig langar oft og mikið til er að fara á allskyns námskeið eða leiklistarhátíðir. Jafnvel í útlöndum. Ef mig langar ógurlega, gæ ég hvort ég get haft efni á því án þess að steypa mér í meira en 200.000 króna skuld, með öllu. Ef ég hef það, þá get ég farið. Ef ég hef það ekki, get ég það ekki. Útrætt mál. Þetta er bara spurning um að vera ekki að reyna að redda sér fyrir horn hlutum sem maður hefur ekki efni á. Mig hefur til dæmis sjaldan langað jafn mikið á nokkurn viðburð og leiklistarhátíð í Mónakó í sumar. Bláköld staðreynd málsins er hins vegar sú að Mónakó er dýr staður að vera á og burtséð frá uppihaldi og ferðum hef ég ekki efni á að fara þangað eða vera þar í 8 daga. Þó ég sé kannski að fara að græða eitthvað uppí yfirdráttinn minn á fasteignabraski.

Galdurinn er sá að láta sér í léttu rúmi liggja þó maður hafi ekki efni á einhverju. Hversu mikið sem mann "langar". Galdurinn er líka sá að koma sér þannig fyrir í lífinu að það sé bara svo ljómandi skemmtilegt á daglegum basís að maður þurfi ekkert sérstaklega á tilbreytingum að halda. Ég geri það viljandi að vinna bara hálfan daginn, svona oftast, nema þegar ég er alveg að fara á hausinn og fæ mér smá aukaverkefni. Og í vinnunni minni er ævinlega gaman og hún er líka með innbyggðar tilbreytingar.

Eftir klukkan 13.00 á daginn er ég hefðarfrú. Þá fer ég í freyðiböð, stunda kaffidrykkjur með námsmönnum og öðru hefðarfólki, dunda mér við heimilis- eða ritstörf. Eða spila bara Mahjong í tölvunni allan daginn ef mér svo sýnist. Og, já, 100.000 kallinn á mánuði dugar auðveldlega fyrir öllu sem ég þarf. Ég versla í bónus, geng í sömu fötunum áratugum saman, á ekki bíl og sjaldan brennivín. Og allt árið er ég í sumarfríi hálfan daginn og sinni hugðarefnum mínum 12 tíma á dag. Á samt fjármuni til stöku bjórsamsætis eftir leikæfingar eða þannig mannsoll.

Jú, mikil ósköp, annað slagið er ég búin að hlaða upp slatta af yfirdráttarheimild. En ég hef líka alveg svigrúm til að vinna stundum aukavinnur. Yfirleitt þarf ekki margra mánaða törn til að borga upp dellurnar.

Mér finnst tími meira virði en peningar. Og þá meina ég tími til að gera lítið sem ekkert, prjóna, eiga heimspekilegar vangaveltur og gera almennt hluti sem maður fær ekki borgað fyrir í peningum. Og þegar fram líða stundir, ala upp börnin og kannski skúra oftar en einu sinni á ári. Ekki það að ég GÆTI ekki gert þetta alltsaman meðfram fullri vinnu, ég segi það ekki, margir gera það, en ég nenni því ekki, langar ekki til þess og sé ekki tilganginn með því. Þegar ég verð hundraðogáttatíu ára vil ég geta litið til baka á lífið og huxað: "Þetta var nú gaman" en ekki "Hei, hvert fór tíminn? Ég var bara alltaf í vinnunni..."

Einhverjir hafa verið að reyna að segja mér að þetta breytist þegar ég eignist börn. Þá VERÐI ég allt í einu að eiga 2-3 bíla og börnin þurfi að fá að ganga í merkjavöru og eiga raftækjaverslun í herberginu sínu, annars verði þau lögð í einelti. Ég hef hins vegar ekki trú á að minn þankagangur breytist mikið við barneignir. (Mig dreymir reyndar um að þá verði ég alltíeinu þessi fyrirmyndarhúsmóðir sem ryksugar á laugardögum og bakar í frystinn, sé það samt ekki gerast.) Huxanlega þarf að gera eitthvað í fjármunaöflun þegar þar að kemur, víst er um það, svona til að eiga í alla og á, en því verður haldið í lágmarki. Líklega verða þá líka námskeið og hátíðir að sitja á hakanum um nokkurra ára skeið. Enda eru þær ekkert að fara neitt. Börn fara hins vegar að heiman með tímanum. Hugsjónamanneskjan í mér stendur algjörlega í þeirri trú að samverustundir fjölskyldunnar séu mikilvægari en hvort fyrstu föt barnsins komi frá Ralph Lauren eða hvort það eigi ýkt dýrt dót til að kaupa sér vini með. Vinir sem þarf að kaupa með dóti eru hvort sem er ekki þess virði að eiga þá.

Þetta er orðinn mjög langur hundur.
Bottomlænið er þetta:
Auðlegðin kemur innan frá og blankheit eru sálræn.
Lífsnauðsynjar eru matur og húsaskjól (og í sumum tilfellum, eins og mínu, skjáreinn). Fyrir utan það þýðir lítið að langa í fleira en það sem maður getur/nennir að vinna fyrir.
Og það held ég sé nú allur galdurinn á bakvið mína óþrjótandi auðlegð, ef einhver hefur verið að pælíði.

12 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Já, ég þarf líka að passa mig mjög vel á hlutum, því, eins og ég pistlaði um fyrir stuttu, þá bind ég við þá tilfinningatengsl og hef áhyggjur af að drasinu mínu leiðist ef ég tala ekki nóg við það. Hlutir sem ég ber ábyrgð á valda mér því bókstaflega kvíðaröskun.
Held kannski að ég hafi verið flækingur í fyrra lífi. Bara átt svona einn poka á priki.

Auður sagði...

Heyr heyr! Hjartanlega sammála öllu ofansögðu. Kannski næ ég einhvern tímann að lifa samkvæmt því líka.

Nafnlaus sagði...

Góður hundur.

Jafnvel enn betri fyrirsögn :)

Nafnlaus sagði...

Núna verð ég alvarlega að velta því fyrir mér hvort ég hljóti ekki að vera átakanlega óhamingjusöm - hef heyrt sagt að ég eigi nebblega doldið mikið af hlutum.

Og ekki skortir nú tilfinningatengslin! O nei! En þau eru góð held ég - hlutirnir minna mig á hvar ég hef verið og hvað ég vil gera og hvað ég hef séð eða hvað þeir hafa séð og það er nú margt! Ég á t.d. dreka sem minnir mig stöðugt á að klára að skrifa um drekann ...

Gleymiði því ekki - freedom´s just another word for nothing left to loose :-)

Hrefna.

Sigga Lára sagði...

Þau eru misjöfn tengslin. Færð þú til dæmis samviskubit ef þú handfjatlar ekki allt sem þú átt minnst einu sinni í viku og talar við það? Eflaust ekki. Það fæ ég, nebblega.

Og svo er þetta náttlega líka bara spurning um val. Eins og ákveðnir vinir mínir segja oft, eymd er valkostur. Það er hægt að eyða í fullt af hlutum, og þykja það gaman en það er ekki þar með sagð að maður velji að sökkva sér niður í fjárhaxlega eymd.

Kannski er þetta spurning um að eyða eingöngu í það sem mann langar reglulega mikið í. Og fara alls ekki eftir einhverju kjánalegu nota- eða skynsemdargildi. Ef það sem mann langar reglulega mikið í er gífurlega gamall kafarahjálmur, eða bingóvél, þá á það örugglega eftir að skapa manni miklu meiri hamingju en peningarnir sem maður eyddi í það hefðu gert liggjandi einhvers staðar, eða hefðu þeir farið í blöndung í bílinn. Kræst ég held það sé að koma annar hundur um löngunarhyggju. Nú mega menn fara að vara sig...

Nafnlaus sagði...

Börnin mín ganga ekki í merkjavöru og það eina sem ég á og hef átt sem talist getur til merkjavöru eru ecco skórnir sem ég splæsi alltaf á familíjuna reglulega. jú, og um daginn fékk ég mér buxur og dagin eftir sagði kona nokkur við mig: mín bara orðin merkjafrík? Ég hváði: hvað áttu við? -Bara í PUMA buxum??
Sko, þegar ég var unglingur þá var Henson og Puma löööööngu komið úr tísku og ég hefði ekki farið út með ruslið í slíkum fatnaði...
Í dag er ég orðin svo mikil drusla að ég tek alls ekki eftir því sem skrifað er á föt.
Bíllinn minn er drusla, húsgögnin mín eru öll úr IKEA nema einn forláta sófi sem hefur fylgt fjölskyldunni í 100 ár, samt er maðurinn minn með mjöööög góðar tekjur. Við bara eyðum þeim í það sem er skemmtilegt, og eigum aldrei pening!!!!!
Og það er bara fínt!
Ylfa.. á leið í RÁNDÝRA utnalandsferð með fjölskylduna!!!!

frizbee sagði...

Hver þarf heimspeki- og sjálfshjálparbækur þegar maður á vini sem skrifa svona snilld

Nafnlaus sagði...

Hlutirnir mínir eru held ég blessunarlega lausir við að vera merkjavara þó þeir merki auðvitað sitthvað fyrir mig.

Held (eins og Sigga Lára klára) að þetta snúist allt um að vera ánægður með það sem á/eignast/gerir/hefur/velur/getur hvort sem það eru hlutir eða eitthvað annað - eins og vinna, peningar, vaxtarlag, kærastar, kynlíf, veðrið ... og allt það. Bann að hugsa alltaf um það sem maður á/... o.s.frv. ekki.

Ójá Hrefna

Sigga Lára sagði...

Well, einmitt. Í nöttsjell. ;-)

Gadfly sagði...

Amen þú ert vitur kona og ættir að halda fyrirlestra í skólum landsins. Held að þessi speki myndi gagnast betur en fjármálauppeldið sem bankarnir eru að reyna að troðast með inn í skólana.

Nafnlaus sagði...

Svo er ég sem á andskotans helling af merkjavöru á alla familíuna, bæði á og undir rassa, en á samt alltaf haug af péningum og brennivíni og drasli! Nenni alls ekkert að vinna, hef sáralítil laun og dvel í útlöndum í tvo mánuði á ári.
Sumu fólki er bara ekki við bjargandi!!!!!!
Huld,
meyja.

...sem ber engar tilfinningar til neins what so ever,
enda af stálmúsarkyni.

Nafnlaus sagði...

Erich Fromm hefði sennilega orðið frekar lukkulegur með þessa ljómandi athugun þína. Fyrir utan hina víðfrægu "The Art Of Loving" o.fl. o.fl. skrifaði þessi frómi Eiríkur "To Have Or To Be" sem varð mikil bíbblía og stuðningsbelti okkar litlu hippanna sem fannst hin ískalda kló efnishyggjunnar ógnvænleg. Glöggur kall Fromm.