Ég gerði ægilega skyssu. Var einhvern tíma í vetur að panta mér dót af Amazon, og fékk þá þessa snilldarhugmynd að fyrirframpanta nýju Harry Potter bókina í leiðinni. Það sem ég huxaði ekki útí var að ég var að panta frá Ameríku. Þetta verður til þess að nú er Potterinn minn einhvers staðar á leiðinni og ég vona bara að ég fái hann í hendur fyrr en um jól.
(Tekið skal fram að titill þessarar færslu er stolinn úr athugasemd á Varríusi sem skrifuð er af Sævari Sigurgeirssyni sem ennfremur vill ekki kannast við að bera nokkra ábyrgð á skemmtiatriðum í brúðkaupi hjónanna Ringsted. Bara svo það sé á hreinu.)
En, það er ýmislegt að gera á meðan maður bíður. Ég seldi til dæmis íbúðina mína í gær. Bara sisvona. Verst að fasteignasalinn fékk eitthvað anal-kast og komst að því að það væri ekki til "lögformlegur" eignaskiptasamningur um draslið. Þannig að ég þarf að láta gera sollis og ég veit ekki hver veit um neinn sem kann það og það getur víst tekið nokkurþúsund ár og kostar grilljónir. Fyrr getur ekki farið fram afsal. Helvítisandskotans. En, var samt í góðu stuði á þegar ég labbaði heim eftir að hafa undirritað kaupsamning, í hippalegu sólinni, raulandi lagið "Aint got no..." úr Hárinu. Mikið finnst mér nú gott að vera eignalaus.
Og svo er það mál manna að það sé ýkt geðveikt skemmtilegt að vera óléttur. Vinkonur mínar sumar meiraðsegja nýbornar hafa haft orð á öfund. Ég verð að segja að ég er ekki alveg að skilja. Nú finnst mér ég vera búin að vera í þessu ástandi frá því að ég man eftir mér, eða þarumbil. Það eina sem ég hef orðið vör við hingað til er bindindi í áfengi og tóbaki sem er yfirleitt bara meira og minna hvimleitt. Fyrir mér er að vera óléttur sem sagt bara alveg það sama og að vera venjulegur, bara meira edrú. Allavega enn sem komið er. Eða var það þangað til mjög nýlega.
Og svo fékk ég glaðninginn Grindverk. (Ég neita að nota orðið grindargliðnun þar sem það er ógeðslegt, eins og reyndar flest læknisfræðiheiti sem tengjast þessu ástandi. Ég veit hins vegar að margar konur fá greindargliðnun sem fylgifisk barneigna og ég vona nú að ég sleppi við hana.) Nú er allavega svo komið að ég þarf að fara í sjúkraþjálfun og ég fram á að þurfa að gera lítið og takmarkað og vera hálfgerður öjmingi, allavega út meðgöngu. Og ég er ekki farin að finna fyrir tilvist eintaklingsins sem málið snýst um.
Gaman? Hmmm... Mér gætu nú fyrr dottið í hug ýmis önnur orð. Fæst hafandi eftir...
Ætla bara rétt andskotann að vona að orðrómurinn sé sannur um að þetta verði alltsaman vesenisins (og bindindisins) virði á endanum. Og áður en maður gengur undir manns hönd í kommentakerfinu til að sannfæra mig er rétt að taka fram að ég veit að ég get ekki vitað það fyrr en hálfu ári eftir fæðingu, eða svo. Sama hvað hver segir.
19.7.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hálft ár? Næstu 50 árin verðurðu að pæla í því.
Maðurinn sem að gerði eignaskiptarsamning fyrir mína fyrrverandi íbúð heitir Konráð Karl Baldvinsson, byggingar- og iðnrekstrarfræðingur.
Vann bæði fljótt og örugglega og var ekki svo dýr.
Gætir kíkt á hann.
Og...til lukku með söluna!
Takk, tékka á honum.
Og sömuleiðis!
Skrifa ummæli