Sumt er svo fáránlegt að maður trúir því ekki fyrr en maður hefur heyrt úr endalaust mörgum áttum og gegnið úr skugga um svo ekki verður um villst. Eitt af því hefur þvælst fyrir mér í allt sumar. En mér skilst að þarna sé, mér til mikils hneykslans, um raunverulega ákvörðun að ræða:
Reykjavíkurborg hefur semsagt lagt svo á og mælt um að enginn fái að stunda tónlistarskólanám í borg þessari sé hann yfir aldarfjórðung að aldri! Nám í söngli eða hljóðfæraslætti ku víst ekki vera fyrir hvern sem er, slíkt á hreint ekki að vera dægradvöl, heldur aðeins fyrir þá sem tök eiga á ferli á við Pavarottí eða Azkinasí. Þessi breyting fær tveggja ára aðlögunartíma.
Ég hélt fast í þá trú, von og vissu að menn væru að misskilja eða fíflast í mér. En það er nú víst aldeilis ekki. Þannig að Rannsóknarskipið má víst bara syngja hratt næstu 2 ár, þá fær hann kannski fyrir náð og miskunn að taka 8. stig. Það þýðir ekkert fyrir Báru syss að ætla að læra á fleiri hljóðfæri hér. Ætli hún flytji ekki bara á Stöðvarfjörð þegar hún kemur aftur eftir ofurnámið? Eða eitthvert annað þar sem tónlist er ekki bara fyrir ákveðna aldurshópa. Þórunn Gréta má víst líklega halda á spöðunum ef hún ætlar að ná burtförinni sinni áður en aldurinn skellur á og Ásta mín fær líklegast ekkert að halda áfram í nýbyrjaða söngnáminu sínu, sem henni fannst svo skemmtilegt og var öll svo upprennandi í.
Og allar eru þessar hrakfarir vina minna og fjölskyldu út af einhverri... FORDILD... í Stefáni Jóni Hafstein.
Ég meina, Stefán, ert þú hálfbjáni? Að menn skuli láta út úr sér annan eins hálfvitagang á tímum símenntunar, og það pakk sem kallar sig jafnaðarmenn! Vegna þess að tónlistarnám á ekki að vera á færi annarra en upprennandi snillinga? Háskólinn ætti kannski eingöngu að vera fyrir upprennandi doktora? Já, jafnvel kannski bara barnaskóli? Segja bara sem svo, "nei, heyrðu, þessi krakki getur ekki lært að lesa. Best að hann fari bara strax að grafa skurði." Það er kannski eitthvað í þessa áttina sem þín framtíðarsýn hljómar? Ha, Stefán?
Tónlist og tónlistarnám er hollt fyrir sálina. (Svo ég vitni í Rannsóknarskipið mitt.) Og það er að sjálfsögðu algjörlega fáránlegt að ætla að fara að halda meirihelmingi þjóðar á þunglyndislyfjum frá aðkomu að henni eftir augljósustu leiðinni.
Þetta er ein meginástæðan fyrir því að það hlakkar í mér yfir æ ljósari dánarfregnum af Rlistanum. Fyrst huxaði ég: Það er nú eins gott, annars hefði ég þurft að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. En vitiði hvað? Held ég geri það bara samt, þó Rlisti sé orðinn þríeinn. Ja, ekki kýs ég flokk sem hefur fíflið hann hr. Hafstein innanborðs. Því síður kellingarhálfvitann sem gerði sig að fífli í kvöldfréttum í gær með því að segja aftur og aftur, með ofstækisglampa í augum: "Það versta sem gæti gerst væri að Sjálfstæðismenn NÆÐU borginni..." án þess að rökstyðja frekar og látandi það hljóma eins og hér ríkti umsátursástand.
Nei, í augnablikinu sé ég marrrrga kosti verri en þann að Sjálfstæðismenn NÁI borginni í næstu kosningum. Og það þarf nú talsvert til að ég láti slíkt frá mér fara. Svona burtséð frá því finnst mér mikið þjóðþrifaverk að halda Gísla Marteini úr sjónvarpinu mínu. Stefán Jón mætti hins vegar alveg koma þangað aftur. Hann er ágætur í að tala, en ætti greinilega aldrei að fá að ráða neinu.
17.8.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Æ Sigga Lára - ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það verða MARGIR aðrir möguleikar... ha... Sigga ha...
Ja hérna, þetta finnst mér nú bara algjörlega ótrúlegt! Hvernig fer fólk að því að láta sér detta svona í hug, það hlýtur að þurfa að vanda sig mikið. Ég verð nú bara að segja það að ég er alla vega bara ánægðari og ánægðari í sjálfstæðisbælinu sem ég bý í ;-)
Heyr heyr... það er miklu betra þegar fólk sem er á öndvörðum meiði en maður sjálfur gerir óskunda en þegar fólk maður aksjúallí stuðlaði að því að kæmist til valda gerir slíkt. Alveg er ég sammála þér með SH - he gives me the creeps... og enn þá meira núna þegar hann hefur gert eitthvað svona af sér.
Makedóninn
Er enn í sæluvímu yfir að hafa haft ástæðu til að nota orðið fordild. Huxa að hún endist út vikuna.
Sé að þú hefur tekið til greina umvandanir Ylfu vegna gremjutónsins. Þú ert öll eitthvað svo miklu glaðari.
Að sjálfsögðu er dagamunur á gremju. Þarf ekki einu sinni umvandanir til. Og svo er auðvitað komin sól í dag, ljóta lægðin sem var yfir landinu í dag er farin og svo náttlega þetta með fordildina. Mikið um gleðiefni í dag.
(Svo hefur mér heldur ekki verið spáð leiðinlegri framtíð eða greindargliðnun í allan dag þannig að gremjið hefur trúlega virkað...)
Já en, Siggalára, valið stendur ekki bara um Errið og Déið eða Vaffið. Hvað með önnur ölternatíf? Mér dettur í hug Ólafur læknir - pössum hálendið og höfum ókeypis í strætó, blink blink.
Ellers, ALLTAF gaman að lesa þig, og ekki síst sértu aggalítið gnafin!
Berglind (sem hefur ekki lesið Jón bró Rannsóknarskipsins í háa herrans)
Takk.
Jésús! Ég sem var alveg harðákveðin í að fara í tónlistarskóla EF ég flytti aftur til byggða. En nú sé ég að ég BÝ í byggð. Þið eruð bara í einhverri ómenningu... með menningarhelgina á næstu grösum... Pah!!
Skrifa ummæli