16.8.05

Gremst!

Ég hef verið með hluta hugskotsins undir feldi. Þannig er að ég hef verið að heyra annað slagið leiðindaathugasemdir sem mér gremjast mjög. Sumir vilja meina að þessa dagana fjalli bloggið mitt ekki um NEITT annað en óléttur og barneignir. Og í framhaldi af því koma síðan aðdróttanir um að persónuleiki minn muni undirgangast heilarýrnun og að ég muni missa áhugann á öllu sem fram fer utan veggja heimilisins, hvort sem mér líka betur eða ver. Mér sárna þessar aðdróttanir og gremjast. Fyrir utan að ég skil þær ekki. Nú þekki ég heilan haug kvenna sem eiga börn og hef ekki orðið vör við það að þær hafi sérstaklega misst áhugann á umhverfi sínu. Hafa reyndar vissulega minni tíma til að sinna því, en þegar ég hitti þær snúast samræður okkar þó að minnstu leyti um heimilislífið eða barnauppeldið.

Og ég gerði úttekt á blogginu mínu. Síðan ástandið var opinberað hef ég skrifað 34 pósta. Þar af hafa 18 innihaldið einhverja vísun í það. (Þá tel ég allt sem getur mögulega talist tengjast því með. Þó aðeins sé minnst einu orði á það í framhjáhlaupi.) Það er örugglega ekkert hærra hlutfall heldur en fór í að fjalla um mastersritgerðina á sínum tíma. Eða fasteignaviðskiptin á meðan þau stóðu yfir. Og ekki var neinn að bregða mér um persónuleikaumskipting þegar þau mál voru efst á baugi.

Það sem mér gremst er að geta ekki tjáð mig um þessi mál, eins og annað sem er í gangi í mínu lífi, án þess að verða skotmark fyrir niðurlægjandi skítakomment. (Já, mér þykja forspár um greindargliðnun vegna barneigna niðurlægjandi.)

Menn ættu að þekkja mín pistlaskrif nógu vel til þess að vita að ég tjái mig ekki nema mér þyki eitthvað fyndið/athyglivert/ámælisvert við þessi mál, af hálfu þjóðfélaxins, kerfisins, skaparans eða annars. (Þetta tiltekna verandi eitt af því.)
Það sem hér er skrifað endurspeglar hins vegar ekkert mitt tilfinningalíf eða mínar hugsanir og væntingar um móðurhlutverkið. Slíkt kemur engum við utan minna nánustu og er þessutan erfitt að spá um. En mér þykir illt að menn skuli vera að reyna að segja mér hvaða væntingar ég EIGI að hafa eða spá hvernig framtíðin verði. (Á þeim forsendum að þannig séu ALLAR mæður og ALLTAF.) Ég fæ ekki betur séð en að hver móðir og hvert heimili sé með sínu lagi. Þar að auki vil ég ekkert vita það! Hef ævinlega verið mikið fyrir að láta lífið koma mér á óvart.

Í ljósi athugasemda mun ég samt varari um mig í framtíðinni og kem ekki til með að tjá mig um þessi mál nema í mjög miklu hófi og ef um er að ræða mikil þjóðþrif eða reglulega góða vinkla. Þessi málaflokkur mun semsagt ritskoðast af meiri hörku en aðrir. Komi mikið fleiri leiðinlegar athugasemdir hef ég hugsað mér að taka málið alfarið af dagskrá.

Það er ekki eins og það sé ekki fullt af heimsósóma til að tjá sig um og margir málefnapistlar bíða samningar.

5 ummæli:

Siggadis sagði...

Æji, blessuð góða... þetta eru bara öfundarraddir... mér finnst gaman að lesa skrif þín hvort sem þau fjalla um óléttur, kaffidrykkju eða hvað sem er. Veit um fullt fullt af fólki sem er mér sammála. Mín reynsla er sú að þetta fólk sem er að kommenta á einhvern leiðinlegan hátt (og belív mí, ég hef lent í ljótu máli eins og hefur komið berlega í ljós) líður bara illa og er að öfundast út í okkur, enda erum við með eindæmum sætar og skelltegar stelpur :-)

Nafnlaus sagði...

Æ ekki ekki svona reið... þetta er bara eins og hvert annað áhugamál og auðvitað ritskoðar þú það ekkert frekar en hugleiðingar þínar um fasteignaviðskipti/makaval eða hvað annað. Það væri bara skítfínt ef þú talaðir hreint ekki um neitt annað en kafbátinn...

Nafnlaus sagði...

Fyrst ætla ég að óska þér til hamingju með alla bátana sem þér hefur áskotnast frá því að ég kommenteraði síðast, sömuleiðis með nýju útgerðaraðstöðuna fyrir þennan flota allan. Síðan ætla ég að styrkja þig í trúnni með það að maður bloggar bara um það sem að manni sýnist og hana nú! Það er alls ekki óeðlilegt að menn bloggi um það sem menn hafa fyrir stafni í lífinu! Ég hef ávísað bloggslóðinni þinni sem meðal við almennri depurð og deyfð og gæti bara vel verið að landlæknir fari að ávísa henni líka í kjölfarið!
Bestu kveðjur
Sesselja Bj. Stefánsdóttir

Litla Skvís sagði...

Til hvers að hlusta á fólk? Það veit hvort eð er ekki neitt fyrr en það upplifir þetta sjálft.
Plús það, að mér finnst þú skrifa virkilega skemmtilega um þessa merku upplifun, ekkert svona *fluffyglimmeralltersvokrúttaðcandyflossað*
If you know what I mean.

Sigga Lára sagði...

Hei, gott orð! Soldið eins og í Mary Poppins. Þarna, súperfrisbí... hvaðþaðnúvar.