30.8.05

Heyrið mig nú

allir mínir stafsetningar- og málfræðinördar. Það kemur fyrir að við Mörður erum ekki alveg sammála. Nú ber svo við að ég er á móti öllum. Hvaða apaheili var það eiginlega sem ákvað að það ætti að skrifa hinum megin, en ekki hinu megin? Hins vegar má segja það í einu orði með einu m-i, hinumegin.

Ég er á móti þessu bruðli með emmin. Auk þess sem mér finnst þessi beyging ekki meika neinn fokkíng sens, sama hvað Mörður segir. Ef einhver kann rökstuðning sem ég skil vil ég gjarnan heyra hann, svo ég sofi betur á nóttunni.

Var samt mun sáttari við hann Mörð minn áðan þegar hann gat staðfest þá trú mína og vissu að að vissu leyti og á næsta leiti væri ekki eins skrifað.

Þetta var málnördismi daxins.(Og, já, sennilega þykir mörgum málfasistanum ég ofnota x-in. Þessum rithætti stal ég af Varríusi og þykir vel, þar sem x hefur verið mjög vannýttur stafur lengi. Vona að til verði breiðfylking x-ista með tímanum.)

Helst er auðvitað í fréttum þessa dagana að leikhúsin ryðjast fram með vetrardaxkrár sínar. Sé ég ekki að Þjóðleikhúsið, með Sævar Sigurgeirs fremstan í flokki, er búið að stela franska leikritinu sem ég ætlaði þvílíkt að slá um mig með því að þýða einhvern tíma. Svona hefnist manni fyrir að gera ekki það sem manni dettur í hug, strax. Ekki nóg með að Sævar sé orðinn mér sneggri í viðbrögðum heldur hótar Árni því reglulega að "Ortona" mig. (Nirðir í einkamálum leikskálda vita hvað átt er við með því.)

En mikið ógurlega hlakka ég til að sjá Túskildingsóperuna í Þjóðleikhúsinu. Mér finnst svo hryllilega skemmtileg tónlist í því. Sem og, auðvitað, 8 konur. (Sem ég ætla að sjá með hinu gagnrýnasta hugarfari og finna handriti allt til foráttu ;-)

Þegar ég verð búin að skoða betur hvað allir ætla að hafa að bjóða getur meiraðsegja vel verið að ég búi til einhvern topp 10 langar að sjá lista að hætti Varríusar. Svo er bara spurning hvenær minn stækkandi búkur hættir að komast í leikhússæti.

8 ummæli:

fangor sagði...

þetta er svona svipað og með athyglivert. það hefur engum íslenskufræðingi tekist að færa fullgild rök fyrir helv. s-inu sem fólki er tamt að troða á milli. athyglis er ekki til. og hana nú.

Berglind Rós sagði...

Bíddu bara þangað til þú þarft að fara að skrifa bleia! Mér er sama hvað orðabók háskólans og allir íslenskufræðingar segja, það heitir bleyja!!!

Varríus sagði...

Bara svo kreditið fari á réttan stað: Ég stal x-hljóðvarpinu af Ármanni.

Og s-ið í athyglisvert tilheyrir síðari partinum.
Athygli-svert: krefst mikillar athygli.

og ef þú vilt ekki lenda í vandræðum með bleyja/bleija, segðu þá bara Pampers.

Nafnlaus sagði...

Jísös manneskja, ertekkjaðtengja? Viltu fjarlægja þennan hamar úr eldhúsinu STRAX!!!
Svo þætti mér vænt um að þú tækir málstað zetunnar sem ég sakna ógurlega úr rituðu máli.

Gummi Erlings sagði...

Varðandi athyglisvert og annað málfarstengt. Það er bara tvennt sem ég þoli ekki hjá fólki, þegar það segir "athyglivert" (sem er últra fordild, auk þess sem ég heyri alltaf röddina í Þorsteini Pálssyni þegar ég sé þetta skrifað), s-ið hefur alltaf verið þarna og hana nú. Það að engin rök séu fyrir því gerir það bara enn fallegra. Það er bara hálfvitaskapur að fara að troða málinu inn í eitthvert röklegt kökuform.

Hitt er "næmni". Það er "næmi", gott fólk. Og ef fólk vill endilega tala um "næmni", af hverju þá ekki ganga alla leið og tala um hvað fólk sé nú "nemmilegt".

Þetta var bloggstuldur dagsins.

Varríus sagði...

Heyr heyr gumm!

málfræði er eftiráathugun á því hvernig málið er notað, ekki rökfræðileg spennitreyja.

Nafnlaus sagði...

Varðandi s-ið í athygli(s)vert og leikfimi(s)tími get ég bent á að Kári vinur minn (eða sem mér finnst vera orðinn vinur minn þótt ég hafi aldrei séð hann) hjá íslenskri málstöð seldi mér e-n tíma ágætisrök fyrir þessari rökleysu. Ég bara man ekki hver þau voru. Mér fannst á tímabili eins og mörgum að maður ætti nú að leiðrétta hefðina og sleppa s-inu, en samtal mitt við Kára varð til þess að ég nota það í dag. Sumt gerist bara eins og af sjálfu sér í málhefðinni, á skjön við allt réttlæti, eins og t.d. það að kvenkyns orð sem enda á i, taka sér eignarfalls-s í samsetningum eins og hver önnur karlkyns- eða hvorugkyns-skrípi.

Varðandi 8 konur Sigga. Ég var sko aldeilis ekki viðbragðssneggri að eigin hvötum – segi bara eins og börnin; „það var beðið mig“.

Annars kom upp skemmtileg umræða um daginn eftir að nöfn 7 leikkvenna í verkinu voru birt opinberlega. Hvaða konu ætli verði sleppt? :) Ætli maður kasti ekki bara upp um það.

Nafnlaus sagði...

Og ... þess má geta að Oddur Bjarni fór líka að naga handarbök þegar þetta lá fyrir. Hafði gengið með konurnar 8 í maganum.

Seggð mér annars Sigríður; gengur þú nokkuð með borgarstjórann í maganum?