29.8.05

Sumarfrí!

Þá er komið sumarfrí, seinni hálfleikur, og ég held að við það tækifæri hafi heilinn á mér dottið úr sambandi. Er varla með meðvitund og nenni hreint ekki að byrja á öllu tiltakinu sem ég ætlaði nú aldeilis að klára í vikunni.

Um helgina fann ég hins vegar Hallgeirunginn í sjálfri mér, bakaði vöfflur og bauð fólki í þær. Fór í eitt barnaafmæli og komst að því að það eru einu staðirnir sem allt "gengið" hittist þessi árin. Svo var mikið grillað í gærkvöldi á pallinum. Mikið var viðhaft við föndrun grills og síðan étin á sig mörg göt í félagi við þau nágrannahjón Nönnu og Jón Geir. (Eða á maður að segja Jón Geir og Nönnu? Hvort er eðlilegra?)

*Geisp* Best að fara að athuga með að koma bókaflóði heimilisins í hillur.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvort er eðlilegra, já?
Ég myndi segja Nanna. Mér hefur alltaf þótt eitthvað Jón Geir eitthvað skrýtinn ;-)

Gættu að því hvað þú skrifar, góða kona! Það er alltaf nóg af barnalegu fólki til að snúa út úr orðum þínum.

Varríus sagði...

Já röðin. Allt er þetta nú spurning um kríteríur:

Stafrófsröð?
Öfug stafrófsröð?
Stærðarröð?
Öfug stærðarröð?
Hverjum-þú-kynntist-fyrst-röð?
Öfug H-Þ-K-F-röð?
Hljómar-betur-röð?
Öfug H-B-Röð?

Eða bara sú almenna og ófrávíkjanlega regla að trommarar séu taldir upp síðastir.

eða öfugt.

Athugaðu líka að sumar þessar kríteríur nýtast líka ágætlega þegar bókum er raðað. Aðrar síður.

og öfugt.

Nafnlaus sagði...

Smæðarröðin! Nanna og Jón Geir er mun eðlilegra. Miklu betra að enda á eins atkvæðisorði en tveggja. Meiri hvíld fyrir talfærin. (Talarðu ekki annars allt jafnóðum sem þú slærð inn, eins og ég?) Ég prófaði líka Nanna Geir og Jón, Nanna Jón og Geir, Geir Jón og Nanna, Jón Nanna og Geir, en ekkert af því virkaði. Grunar helst að það sé jafnvel ólöglegt.

Hljómar-betur-röðin virkar ekki á bækurnar. Nema maður taki eina og eina og láti detta flata í gólfið úr brjósthæð (teppalagt gólf er ómark) og raði síðan frá vinstri til hægri þeim sem gera mesta skellinn. Maður raðar nb bókum ALLTAF frá vinstri til hægri.

Lengi vel raðaði ég bókum reyndar eftir litum á kili og/eða frá hæstu til lægstu. Stundum varð til aflíðandi brekka efst, afspyrnuljót. Og Saga Kaupfélags Norður Þingeyinga og Engin miskunn eftir Dick Francis urðu að gjöra svo vel að standa hlið við hlið af því þær voru báðar grænar. Konan mín hló að þessu. Henni fannst aftur á móti óþægilegt ef ég raðaði ekki diskunum eftir stærð í uppþvottagrindina, eða þvottinum á snúruna frá stærsta stykki til hins smæsta. Ég hló bara að henni.
Og svona höfum við hlegið að furðulegum einhverfutendensum hvors annars þar til þeir afmáðust með öllu hjá okkur báðum. Og núna! Bækurnar allar í rugli, uppvaskið í vélinni, þvotturinn í kuðli í þurrkaranum... en ég hef reyndar tekið eftir að börnin eru í stærðarröð eftir aldri. Gæti hafa verið undirmeðvitundin sem raðaði þeim niður.

Svo biðst ég afsökunar. Borðaði langloku í hádeginu.