1.9.05

Land undir hjól

Í dag held ég með flotann úr átthögunum. Eða kannski öllu heldur í þá. Höldum norður seinnipartinn hvar smábátur mun endurnýja kynni við norðurarm fjölskyldu sinnar. Ég verð í pössun að Brekku í Eyjafjarðarsveit á meðan Rannsóknarskipið menntar sig og svo er stefnan tekin austur í mín foreldrahús á laugardaxkvöld. Þar ætla ég að skilja mig eftir fram til sunnudax 11. september. Ætti að vera rúmt um mann í flugvélinni þann dag.

Í fréttum af barninu í sjálfri mér er það helst að ég fór í mæðraskoðun í gær og hafði ekki þyngst um eitt einasta gramm. Þóttu mér það góðar fréttir, en nokkuð undarlegar... Sú stækkun sem ég hef verið að sjá er þá líklega annað hvort ímynduð eða þyngdarlaus. Svo var mér uppálagt að taka járn þar sem ekki ku vera nóg af slíku í búskapnum. Lext á gaddavírsgirðingar í sveitinni.

Samt er óttalega kjánalegt að vera að fara svona seint í frí. Hugleikur kominn á fullt og ég missi af allskyns. Þykir reyndar bara betra að höfundagengið mitt úr Jólaævintýri stefni á bjór að mér fjarstaddri. Öfund er best stunduð úr fjarlægð. Ég gleymi líka og týni og afsaka mig frá partíum þessa dagana alveg eins og ég fái borgað fyrir það. Þar sem það er mér lífsins ómögulegt að vera vakandi fram yfir miðnætti, auk þess sem, sé maður ekki allavega með aðeins í öðrum fótnum, þá er það bara hreint ekki þess virði.

En það er löngu ákveðið, að það fyrsta sem ég geri, eftir að mannkyni hefur verið fjölgað og mjólkurbúi lokað, verður að drekka mig á öskrandi eyrun og herðablöðin svo undirtaki í heimsbyggðinni allri og ekki standi steinn yfir steini af siðmenningunni eftir.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En svo getur maður lent í því bara alsoffevarendis einn daginn að langa hreinlega ekkert í t.a.m. bjór og finnast hann alls ekkert góður. Þá er fokið í flest og mál til komið að fara að æfa sig... Það er ég einmitt að reyna að gera um þessar mundir...

Nafnlaus sagði...

Held ekki, eftir að kafbátur gengur á land muntu ekki tíma að missa af einu einasta mómenti. Hugsaðu þér, þú á herðablöðunum úti í bæ og litla dýrið tekur sína fyrstu tönn...

Nafnlaus sagði...

Það eru oft hinir litlu hlutir sem gleðja mig mest;

"Í fréttum af barninu í sjálfri mér..."

- made my day!

Nafnlaus sagði...

Það sem stendur lokuðum mjólkurbúum helst fyrir djammþrifum er nennleysi mikið við skemmtanir. Mjólkandi eða ekki, maður þarf samt að vakna óguðlega snemma......

fangor sagði...

vakna? til hvers eru aðrir heimilismeðlimir en ekki til að vakna meðan maður er þunnur? svo má líka fá barnfóstrur yfir nótt og fram yfir hádegi..

Sigga Lára sagði...

Alveg nákvæmlega. Vill nefnilega til að ég á einstaklega dásamlegan, vikaliðugan, umhyggjusaman og greiðvikinn mann. Hann mun gæta bús og barna fyrir mig þegar þarf, og ég geri að sjálfsögðu hið sama fyrir hann þegar hann þarf að sofa. Verkaskipting.

Og, missa ekki af einu einasta mómenti? Menn halda kannski að ég ætli bara að hætta að mæta á stjórnar- og höfundafundi í Hugleik og skipta mér af? Segja lífi mínu lokið og erfingjans tekið við? Á ég ekki bara að panta Zoloftið strax?

Er hrædd um að geðheilsu minnar vegna verið ég að missa af talsverðum slatta af mómentum...

Nafnlaus sagði...

„Barnið í sjálfri mér“ fær tvímælalaust orðhnyttniorðu dagsins. Tær snilld.

Því miður er það nú svo að það er sama hversu einstaklega dásamlegir, vikaliðugir, umhyggjusamir og greiðviknir við erum, (en þetta eigum við Árni einmitt sameiginlegt :)), þá koma stundir þar sem kafbátarnir hreinlega sniðganga okkur eins og hvert annað botnvörpubrunnið kóralrif af því sjálfstýring þeirra og radar eru stillt á móðurmjúkar barmahlíðar.

Nafnlaus sagði...

Reyndar er ég ekki frá því að fólk sem getur ekki á heilu sér tekið yfir öllum fylleríunum sem það á eftir að missa af vegna foreldrahlutverks, ætti kannski að liggja svolítið betur yfir hlutverkinu áður en það fer á svið.

En það er líka auðvelt fyrir okkur karlmenn að segja svona; sem þurfum ekki að upplifa eða óttast ófrelsið og rútínubreytingarnar á eigin líkama og getum þess vegna drukkið eins og svín (ef við værum ekki svona déskoti dásamlegir, vikaliðugir, umhyggjusamir og greiðviknir). :)

En engu að síður; ef ég væri kafbátur og fengi veður af þessu attitjúdi uppi á yfirborðinu myndi ég horfa vandlega í allar sjónpípur og hugsa mig tvisvar um áður en ég færi þangað. Hver vill skemma gott fyllerí?

Sigga Lára sagði...

Dúds og honeys. Ég er nú ekki að segjast vera miður mín vegna afmissis, enda lítið farið fyrir djömmum á mínu heimili árum saman.

Svo við höfum það á hreinu, ég er að tala um EITT KVÖLD einhvern tíma næsta sumars, að brjóstagjöfum afloknum. Og í framhaldi af því EINN MORGUN sem Árni gæti huxanlega þurft að taka að sér barnavaktina. Gerir það mig að vanhæfu foreldri?

Hef ekki huxað mér að liggja íðí neitt, í framtíðinni frekar en hingað til.