9.8.05

Hoppirólur rúla!

Maður er náttlega soldið sikk. Eins og þegar maður er að renna yfir fyrirspurnasíður og lesa sér til um geðtruflanir á meðgöngu, þá er auðvitað miklu meira spennandi að lesa fyrirspurn sem heitir til dæmis: Hver er pabbinn? eða Þarf að geta djammað!

Þá setur maður sig á örlítið háan hest, inni í sér, og þykist búinn að steingleyma að það hafi nokkurn tíma hent mann að sofa hjá tveimur í sama mánuðinum eða að maður hafi haft þörf fyrir að djamma. Svona er nú margt tvískinnið.

Ein ályktun kemur þó út úr athugunum morgunsins. Ég er alveg ákveðin, nema faðernið sé því gífurlega mótfallið, að hengja börnin mín í hoppirólur. Jafnvel í tíma og ótíma. Ég er nefnilega alveg viss um að það er hin besta skemmtan og er viss um að mín barnæska hefði orðið jafnvel enn skemmtilegri fyrir vikið. Á mínum allra fyrstu árum var nefnilega ekki búið að finna upp hoppiróluna. Hvað þá þá bábylju að hún gerði börn að hreyfihömluðum krypplingum, eins og öryggismeðvituðustu kenningar vilja meina.

Við urðum því að skemmta okkur, algjörlega teygjulaust, við að hoppa niður úr stigum, af stólum, borðum og niður af svölum. Sem er örugglega líka orðið alveg snarbannað í dag. En ég held helst að ekki sé hægt að koma í veg fyrir að börn hoppi. Og því alveg eins gott (og örugglega geðveikt gaman) að þau geri það í teygjustökksbúnaði til að byrja með.

Annars held ég að í mínum genum sé að vakna fjölskyldurebellinn. Það er ekki bara rebelismi sem erfist, heldur líka sértækur rebelismi í öryggismálum fjölskyldunnar. Í mínu uppeldi var nefnilega farið mjööög frjálslega með öryggisreglur. Börn hjálpuðu til við að steikja kleinur, frá því að þau gátu setið uppi á bekk. (Við hliðina á feitipottinum. Á því lærðu þau að vera ekki að brenna sig.) Útivistar- eða háttatímar voru yfirleitt ekki viðhafðir, enda var móðir mín morgunsvæf og þótti bara betra ef börnin vildu göltrast á löppum fram undir miðnætti. Og á bindindisdegi fjölskyldunnar fengu allir fermdir í glas. Og af því var jafnan tekin heimildamynd.

Ég held líka helst að öryggismálin séu komin út í öfgar. Segi ekki að það sé kannski ekki ágætis þróun að menn séu farnir að setja þvottaefnið einhvers staðar þar sem börn ná ekki að éta það, og að börn standa ekki lengur uppá endann á milli framsætanna í bílnum heilu og hálfu sumarfríin... (án hvers ég þekkti reyndar landið mitt talsvert ver en ella) en fyrr má nú samt rota en fótbrjóta.

Vona að okkur Rannsóknarskipi beri gæfa til að ala upp börn með kæti í stað kvíðaraskana.

Engin ummæli: