10.9.05

Af Austlandinu

Þá er ég búin að nota og margnota öll dóna- og sóðaorð sem ég kann. Maður þekkir ekki orðaforðann sinn fyrr en maður er búinn að þýða nokkra Jackass-þætti.

Svo er komið gat á Fáskrúðsfjörð. Með þeim ófyrirséðu afleiðingum að nú geta innviðir þess samfélax lekið út um allt. Í hefndarskyni fórum við þangað í dag og átum frá þeim kaffi og kökur. Komum við á Reyðarfirði og tilbáðum heilagan Alcoa. Hann var bara kátur.

Og nú fer þessari útlegð minni að ljúka. Fer í menninguna á morgun. Og verð að segja það að þó Gröndallinn sé nokk skemmtilegur rekkjunautur þá vil ég nú heldur hafa Rannsóknarskipið mitt. En aftur sný ég með góðar birgðir af fatnaði og ýmsu á afkomandann nýfæddan, þannig að ekki þarf að velta fleiri vöngum yfir undirbúningi í bili. Einhverjum þykir þetta kannski fádæma snemmbúin fyrirhyggja. Held samt að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið. Leikárið er að byrja og svo koma jól. Og janúar verður líklegast kominn áður en maður getur sagt simsalabimm. Og þá er nú betra að standa ekki allt í einu uppi með berstrípaðan krakkann.

Og, hef eftir ágætlega áreiðanlegum heimildum að Bára syss ætli að hefja bloggun á morgun. Ég bíð allavega gífurlega spennt.

1 ummæli:

Bára sagði...


Búin að gera bloggið. Slóðin er baraekkertrugl.blogspot.com